Vill sameina lyfja- og heilbrigðiskostnað

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, segir reynslu þurfa …
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, segir reynslu þurfa að komast á greiðsluþátttökukerfið áður en næstu skref verði stigin.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra er þeirrar skoðunar að sameina eigi lyfja- og heilbrigðiskostnað undir sama þaki. Hann telur þó ekki eiga að taka ákvörðun um það hvernig verja eigi hærri greiðslum til málaflokksins fyrr en reynsla er komin á breytt greiðsluþátttökukerfi sem tók gildi 1. maí sl.

Þetta kom fram í máli ráðherra í umræðu um greiðsluþátttöku sjúklinga á Alþingi í dag. Sagði Óttarr breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga vera mikið framfararskref t.a.m. fyrir öryrkja og barnafjölskyldur, en að markmiðið sé að verja sjúkratryggða fyrir mjög háum greiðslum.

„Fjárlög þessa árs gera ráð fyrir einum milljarði til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga,“ sagði Óttar. Stefnt sé að því að hækka framlag til málaflokksins enn frekar í fjárhagsáætlun fyrir árin 2018 -2022. „Við verðum hins vegar að fá reynsluna sem er nú að komast í gagnið og sjá hvort hún breytir einhverju um hegðun sjúklinga og hvort að þátttaka í kerfinu breytist.“

Þetta verði að gera áður en ákvarðanir verða teknar um frekari breytingar á greiðsluþátttöku. „Áður en ákveðið er hvort þar verði komið frekar til móts við ákveðna hópa frekar en aðra, eða hvort það verði notað til að færa flokka á borð við tannlækningar og sálfræðiþjónustu inn í greiðsluþátttökuþakið.“

Kvaðst ráðherra sjálfur sjálfur þá vera hlynntur því að sameina lyfja- og heilbrigðiskostnað undir sama þaki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert