Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, segir það rangt að hann hafi farið á bak við stjórn samtakanna með gerð ráðningarsamnings við sjálfan sig og fyrir að hafa tekið bíl á leigu til afnota fyrir sjálfan sig.
Hann kveðst vera með hreinan skjöld í málinu og hyggst birta fundargerð þar sem umræddar ákvarðanir komi fram. Segir hann í Morgunblaðinu í dag, að í fundargerðunum sé að finna samþykki stjórnar um að annars vegar fela varaformanni samtakanna að gera ráðningarsamning við formann og hins vegar að vilji sé til að formaður fengi bifreið og skrifstofu til afnota.
Fulltrúar meirihluta stjórnar hafa ekki viljað bregðast við þessum fullyrðingum Ólafs, en stjórnarfundur verður hjá samtökunum í kvöld. Stjórnin samþykkti vantraust áÓlaf fyrr í mánuðinum og sagði honum upp sem starfandi formanni.