„Ég er svo ótrúlega heppin að vera svo vel staðsett að hér er mjög lítið flóð,“ segir Renata Sigurbergsdóttir Blöndal, í samtali við mbl.is. Renata er stödd í Houston í Texas ásamt eiginmanni sínum þar sem þau voru í brúðkaupi hjá vinafólki á laugardagskvöldið, kvöldið áður en fellibylurinn Harvey reið yfir borgina með tilheyrandi usla.
Renata og maðurinn hennar Óskar Ingi Magnússon vita ekki hvenær þau komast aftur heim til Íslands enda liggja allar samgöngur frá borginni niðri.
„Það rignir mjög mikið og er bara búið að rigna svona nánast látlaust,“ segir Renata. Miklir vatnavextir hafa verið í borginni sem og víðar í Texas og í Louisiana vegna rigninganna sem fylgja fellibylnum.
Brúðkaupsveislunni var slitið snemma vegna veðursins og segir Renata það hafa verið algjört ævintýri að komast heim þar sem vatn flæddi yfir alla vegi. Rigningin hafi verið eins og öflug sturta. „Ég hef heldur aldrei upplifað jafnháværar þrumur á ævi minni,“ segir Renata.
„Borgin hefur verið alveg tóm af fólki síðan á föstudag og fólk fékk frí í vinnu á föstudag til að undirbúa fyrir storminn. Þau Renata og Óskar halda til í heimahúsi í Montrose-hverfi rétt vestan við miðborg Houston og hafa verið svo heppin að ekki hefur flætt inn í húsið.
„Kerfið hérna virkar þannig að þá safnast vatnið saman á götunum og svo leiðir það niður ákveðnar götur sem hafa halla og síðan skolar kerfið úr sér […] Við erum búin að fylgjast með vatninu rísa mjög hratt, kannski upp að hnjánum þegar við förum út, og svo bara fellur það aftur,“ útskýrir hún.
Hún segir afar sérstakt að upplifa ástandið, einkum í ljósi þess að vita að í næsta nágrenni er allt gjörsamlega á floti. „Ég bý hérna hjá einni sem býr í Houston og fólk sem vinnur með henni, þau eru að flýja húsin sín í bátum og koma gæludýrum og fleiru í kajaka til að komast út úr heimilum sínum.“
Aðspurð segir hún þau halda sig mest innan dyra en í morgun gerðu þau sér ferð í búðina til að versla inn. „Við fórum og versluðum í matinn á föstudaginn og svo eru búðirnar bara búnar að vera lokaðar en það opnaði í morgun. Við stóðum í langri biðröð í morgun fyrir utan verslunina til að komast inn og kaupa matvörur,“ segir hún.
Áður en óveðrið skall á seldist upp nær allur matur og drykkur í verslunum í Houston en einhverjar vörur voru aftur komnar í hillurnar í morgun. Að sögn Renötu fara þær hratt út.
„Það er svona verið að reyna að koma með mat á svæðið en borgin er í rauninni alveg lokuð. Það er ekkert hægt að komast héðan, hvorki á neinum hraðbrautum og allir flugvellir lokaðir og allt saman,“ segir Renata sem kveðst þó þakklát fyrir þær aðstæður sem þau búa við samanborið við aðra á svæðinu.
„Hjá flestum er náttúrulega búið að flæða inn en það hefur ekki gerst enn þá hérna akkúrat á þessu svæði. Það er náttúrulega líka rosalega sérstakt að vera svona rosalega heppin að vera tiltölulega þurr og svo heyra af öllum hörmungunum í kringum sig. Því þetta er náttúrlega ekkert grín, það hafa orðið nokkur dauðsföll,“ segir Renata.
„Við vitum ekkert hvenær við komumst heim. Við ætluðum að fara héðan í morgun en frá því að veðrið versnaði erum við búin að reyna að komast heim síðan á sunnudagsmorgun en svo hefur flugum verið aflýst aftur og aftur og aftur.“
Hún segir ógnvekjandi að vera svo gott sem fastur innandyra og sjá vatnið í götunni hækka alla leið upp að tröppum hússins. „Það er ekkert búið að gerast í dag þannig að við erum bara jákvæð á að þetta fari nú að minnka en mér sýnist nú á fjölmiðlum að það taki langan tíma að tæma borgina,“ segir hún.
„Það eru þessi svæði sem eru í dældum sem fyllast af vatni. Þau hús sem eru lágt niðri, sem eru kannski ekki í fínni hverfunum, þau eru almennt staðsett talsvert lægra og þau fyllast bara af vatni jafnvel alveg upp að þaki. Þau fara bara á kaf.“