Ótímabundnu verkfalli flugliða um borð í flugvélum Primera Air, sem átti að hefjast 15. september en var frestað og var áformað 24. nóvember, er ólögmætt. Þetta er niðurstaða félagsdóms frá því í dag. Dómurinn var aftur á móti klofinn þar sem niðurstaða þriggja dómara í dóminum var að um ólögmæta boðun væri að ræða. Tveir töldu hins vegar að formsatriði boðunar væru uppfyllt en tóku ekki efnislega afstöðu til þess hvort um væri að ræða ólöglega boðun eða ekki.
Primera Air stefndi Flugfreyjufélagi Íslands vegna verkfallsboðunarinnar, en í vor var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum hjá félaginu að boða til verkfalls um borð í vélunum á þeim forsendum að réttindi flugliða væru ekki virt um borð í vélunum og laun þeirra væru langt undir íslenskum lágmarkslaunum.
Í málinu var meðal annars tekist á um hvort Flugfreyjufélagið gæti beitt þvingunaraðgerðum samkvæmt íslenskum lögum þar sem Primera væri ekki með starfsemi á Íslandi. Þá var einnig dregið í efa að Flugfreyjufélagið hefði samningsumboð fyrir starfsmenn flugfreyja um borð í vélum Primera.
Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er það skýrt að til þess að boðun vinnustöðvunar sé lögmæt þurfi samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur að hafa reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara.
Samkvæmt dómi félagsdóms hafði Flugfreyjufélagið ítrekað reynt að fá Primera að gerð kjarasamninga fyrir þá sem starfi sem flugliðar um borð í vélum félagsins sem fljúgi til og frá Íslandi. Var óskað eftir fundi með forstjóra félagsins í júní 2016 og í desember sama ár var þess krafist að gengið yrði til formlegra viðræðna. Þá var tekið fram að yrði bréfinu ekki svarað fyrir 9. janúar 2017 yrði málið sent ríkissáttasemjara. Var það gert 23. janúar.
Ríkissáttasemjari svaraði þeirri beiðni 13. febrúar og sagði að „svo mikill vafi sé uppi um hvort ríkissáttasemjara sé rétt að koma að málinu í ljósi þess hvert umfang valdaheimilda ríkissáttasemjara er og möguleikar embættisins til að beita þeim valdaheimildum“ og var niðurstaðan því að sáttasemjari myndi ekki láta málið til sín taka.
Í apríl var svo ákveðið með öllum atkvæðum á fundi Flugfreyjufélagsins að hafa atkvæðagreiðslu um umrædda vinnustöðvun. Var atkvæðagreiðslan dagana 2.-9. maí. Kosningarétt áttu 1.189 félagsmenn og greiddu 429 þeirra atkvæði eða 36,1%. Allir samþykktu vinnustöðvunina. Primera gagnrýndi að um hefði verið að ræða almenna atkvæðagreiðslu, en ekki sértæka sem næði bara til þeirra starfsmanna sem fljúgi á umræddum leiðum. Þá væri fjöldi þeirra sem tóku þátt meiri en þeirra sem sinntu umræddu flugi.
Segir Primera að það hafi fyrst verið eftir þessa atkvæðagreiðslu sem sáttasemjari hafi fyrst boðað til fundar í júní 2017. Vegna þess sé skilyrði um lögmæti atkvæðagreiðslunnar áður en reynt hafði verið til þrautar að ná sáttum ekki til staðar.
Er meirihluti félagsdóms sammála þessum röksemdum flugfélagsins. „Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verður ekki ráðið að neinar samningaviðræður hafi farið fram fyrir milligöngu ríkissáttasemjara frá því að kröfur voru lagðar fram, hvorki formlegar né óformlegar. Virðist það raunar óumdeilt,“ segir í dóminum. Er ótímabundin vinnustöðvun sem átti að hefjast 15. september, en var frestað til 24. nóvember því dæmd ólögmæt.
Minnihluti félagsdóms skilaði sératkvæði og taldi að Flugfreyjufélagið hafi formlega vísað málinu til ríkissáttasemjara í janúar. Embættið hafi þar brugðist hlutverki sínu og Flugfreyjufélagið geti ekki borið hallann af því að embættið hafi þar með haft verkfallsréttinn af félagsmönnum þess. „Að óbreyttri afstöðu ríkissáttasemjara yrði verkfallsréttur félagsmanna stefnda að engu hafður. Telja verður að sú viðleitni sem stefndi sýndi með því að vísa deilunni til sáttasemjara, og það tækifæri sem sáttasemjari þá hafði til þess að koma að deilunni, uppfylli það skilyrði um milligöngu sáttasemjara eins mál þetta liggur fyrir,“ segir í sérálitinu.
Vegna niðurstöðu meirihlutans er hins vegar ekki fjallað á annan hátt um efnisatriði málsins eða tekin afstaða til þeirra í sératkvæðinu.