Tímabundin EES-aðild ekki í boði

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, ræða …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, ræða við blaðamenn í gær. AFP

Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, gaf lítið fyrir hugmyndir um að Bretland geti gerst tímabundið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) í nokkur ár þar til bresk stjórnvöld hefðu samið um fríverslunarsamning við Evrópusambandið vegna útgöngu landsins úr sambandinu, á blaðamannafundi með breska forsætisráðherranum Theresu May í Ósló í gær. Svaraði hún þar fyrirspurn frá blaðamönnum en fjallað er meðal annars um málið á fréttavef Daily Telegraph.

Hugmyndir í þessa veru hafa verið viðraðar af nokkrum breskum þingmönnum sem mögulegar leiðir til þess að lenda viðræðum Breta við Evrópusambandið vegna útgöngunnar, en auk Noregs eru Ísland og Liechtenstein aðilar að EES-samningnum án þess að vera í sambandinu. Solberg sagði að erfitt yrði fyrir suma aðila samningsins að samþykkja slíkt. Það væri vandkvæðum bundið að samþykkja inngöngu Breta í EFTA og EES á sama tíma og fyrir lægi að þeir hefðu í hyggju að yfirgefa hvort tveggja í framhaldinu.

Hins vegar sagði Solberg að annað gilti um það ef Bretar vildu gerast varanlegir aðilar að EFTA og EES-samningnum. May tók hins vegar fram að aðild að EES í gegnum EFTA kæmi ekki til álita enda myndi það ekki samrýmast niðurstöðu þjóðaratkvæðisins í Bretlandi 2016 þar sem meirihluti breskra kjósenda samþykkti að yfirgefa Evrópusambandið, en í kosningabaráttunni lögðu stuðningsmenn þess áherslu á endurheimta völd Breta yfir lögum sínum, peningum og landamærum. Ítrekaði hún þar fyrri yfirlýsingar.

Viðræður standa enn yfir á milli Evrópusambandsins og breskra stjórnvalda um skilmála útgöngu Bretlands úr sambandinu en gert er ráð fyrir að af henni verði 29. mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert