Fari Bretland úr Evrópusambandinu án þess að semja sérstaklega um það við sambandið yrði landið í mjög erfiðri stöðu að mati Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Þetta kemur fram í viðtali breska ríkisútvarpsins BBC við Katrínu. Sagði ráðherrann enn fremur að slík útganga Bretlands væri einnig áhyggjuefni fyrir Íslendinga.
Vísar Katrín þar til mikilla og náinna viðskipta og annarra tengsla á milli Bretlands og Íslands en þess utan litu Íslendingar á Breta sem eina af vinaþjóðum sínum.
Rifjuð eru upp tengsl Íslands við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn og haft eftir forsætisráðherra að þátttaka í innri markaði sambandsins hefði komið sér vel.
Katrín segir nauðsynlegt að deila sumu regluverki með Evrópusambandinu og nefnir í því sambandi reglur sambandsins á sviði umhverfisverndar og fjármálaeftirlits.
Forsætisráðherra segir hins vegar að reynst hafi Íslandi vel að vera utan Evrópusambandsins eftir að bankarnir féllu haustið 2008.
Spurð hvort hún teldi að Skotland gæti orðið sjálfstætt ríki segir Katrín svo algerlega vera að hennar mati. Hins vegar sé það ekki hennar ákvörðun hvort svo verði.