Til stóð að Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra yrði stödd í Berlín í heimsókn í dag en heimsókn hennar var aflýst á síðustu stundu. „Það er mikið að gera í þinginu í stórum málum sem hafa verið í undirbúningi í langan tíma, eins og Menntasjóðurinn og Menntun og hæfi,“ segir ráðherra að sé ástæðan fyrir þeim forföllum, í samtali við mbl.is.
Meðal þess sem var á dagskrá mennta- og menningarmálaráðherra var að vonum menning; heimsókn í íslenska sendiráðið, Þýskalandsfrumsýning myndarinnar KAF, tónleikar Sinfóníunnar í Konzerthaus Berlin; og einnig menntir; heimsókn í Humboldt-háskóla, sem heldur úti stærstu norrænu- og þar með íslenskudeild í Þýskalandi og þótt víðar í Evrópu væri leitað.
Íslenska ríkið fjármagnar að hálfu eða heilu leyti stöður íslenskukennara við nokkra erlenda háskóla og til stóð að framtíð þess sambands við Humboldt-háskóla yrði rædd í heimsókn ráðherrans. Og það verður væntanlega gert, þó að Lilja sjálf komi ekki, enda kemur sendinefnd á hennar vegum þrátt fyrir forföll hennar sjálfrar. Fundur fer fram síðdegis í háskólanum um þetta mikilvæga mál, en frá öndverðri þessari öld hefur Ísland fjármagnað hálfa stöðu kennara í Humboldt, eftir samningum til fimm ára í senn, og sem stendur eru þeir samningar lausir.
Það er ekki von nema spurt sé hvort málefni útgerðarfyrirtækisins Samherja hafi átt þátt í því að Lilja sá sér þann kost vænni að halda kyrru fyrir á Íslandi en sjálf segir hún að svo hafi ekki verið, það sé ekki ástæðan. Annirnar í þinginu séu einfaldlega svo miklar, að kraftar hennar væru nauðsynlegir á Íslandi einmitt núna. Verið væri að vinna í frumvörpum ýmsum, meðal annars um menntasjóð og hið margumtalaða frumvarp um styrki til fjölmiðla.
„Framganga þingmála er í forgrunni og sendinefndin er vel mönnuð,“ segir Lilja jafnframt um þessa fjarveru sína. Einnig stóð til að hún heimsótti leikhúsið Volksbühne, undirritaði samninga við Künstlerhaus Bethanien um að fjármagna þar dvöl íslenskra listamanna og svo var fyrirhugaður fundur við menntamálaráðherra Þýskalands. Óvíst er hvort allt verði þetta afgreitt af staðgenglum hennar, en meðal þeirra er Karitas H. Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu. Ræður Lilju, sem til stóð að hún flytti í sendiherrabústaðnum í móttökuathöfn í kvöld, verða lesnar af öðrum, og allt fer fram sem skyldi, þó að ráðherrann verði fjarri góðu gamni.