Tillögurnar verða í óbreyttri mynd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mætir á ríkisstjórnarfundinn í ráðherrabústaðnum í morgun.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mætir á ríkisstjórnarfundinn í ráðherrabústaðnum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leggur þessa stundina fram minnisblað fyrir ríkisstjórn, sem lýsir nákvæmri áætlun um hvernig höftum á lífi Íslendinga verður aflétt frá 4. maí.

Svandís sagði við mbl.is rétt fyrir ríkisstjórnarfund í morgun að sínar tillögur færu í öllum meginatriðum að tillögum sóttvarnarlæknis.

Spurð hvort einhverjar breytingar yrðu gerðar á því sem sóttvarnalæknir hefur lagt til svaraði hún: „Ég býst ekki við því.“ Ekki nokkrum breytingum? „Nei, en eins og ég segi: Ég ætla að tala við ríkisstjórnina fyrst.“

Ekki er vitað hvað felst í þessum tillögum sem samkvæmt þessu verða samþykktar í óbreyttri mynd en það kemur í ljós í hádeginu á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sem samdi þær hefur þó talað um að farið verði mjög hægt í sakirnar, jafnvel svo að ljóst sé að einhverjir verði ósáttir. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við mbl.is að hún hefði ekki sjálf séð minnisblað heilbrigðisráðherra um málið en að hún þekkti efni tillagna sóttvarnalæknis og gerði ráð fyrir að þetta yrði „í sama dúr“.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við ráðherrabústaðinn í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við ráðherrabústaðinn í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Frá 4. maí hefst aflétting þeirra hafta sem hafa verið lögð á almennt líf Íslendinga vegna útbreiðslu faraldursins og gefið hefur verið út að þeim aðgerðum verði aflétt fyrst sem síðast voru lagðar á. Þar á meðal var lokun sundlauga, líkamsræktarstöðva, hárgreiðslustofa og síðan var samkomubannið hert úr 100 í 20. Hverju af þessu verður breytt aftur nú í hádeginu er óljóst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert