Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að nýr samningur á milli flugfélagsins og Flugfreyjufélags Íslands sé í takt við það sem félagið stefndi að.
Skrifað var undir nýjan kjarasamning við flugfreyjur um tvöleytið í nótt. Hann er til fimm ára og hann gildir út september 2025, ef hann verður samþykktur í atkvæðagreiðslu sem lýkur 27. júlí.
Bogi segir samninginn mikilvægan fyrir félagið. Spurður hvort með honum sé verið að bjarga félaginu segir Bogi við mbl.is: „Þetta er mikilvægur þáttur í þessari vegferð sem við erum í, að koma félaginu í gegnum þennan storm og klára þetta verkefni sem við erum í, mjög mikilvægt, já.“
Samningurinn fer í atkvæðagreiðslu á næstu dögum.„Við trúum því að hann verði samþykktur. Þá er þetta frá en það er ýmislegt eftir hjá okkur sem við eigum eftir að klára í tengslum við þessa endurskipulagningu, og að koma félaginu í gegnum þetta ástand sem öll flugfélög eru í núna,“ segir Bogi.
Uppsagnir flugfreyja og flugþjóna sem boðaðar voru í gær hafa verið dregnar til baka. Spurður hvers vegna ráðist hafi verið í uppsagnir ef enn var kostur á að semja segir Bogi: „Svona gerist þetta bara. Í gær var ekki útlit fyrir að það væri möguleiki að semja. Það hafði slitnað upp úr viðræðum en síðan fara aðilar að nálgast aftur og svo endar þetta svona.“
„Við förum í þær í þeirri stöðu sem við vorum í í gær og það var staðan sem var fyrir framan okkur og ekkert annað að gera, því miður,“ bætir hann við.
Samningur sem var undirritaður 25. júní var felldur með 72% atkvæða í atkvæðagreiðslu hjá flugfreyjum. Nýr samningur byggir að mestu á eldri samningnum en í honum felst viðbótarhagræðing fyrir fyrirtækið, segir Bogi.
„Það voru ákveðnir liðir sem voru skýrðir betur í þessum samningi. Hann byggir að langmestu leyti á fyrri samningi en auk þess kemur til viðbótarhagræðing fyrir fyrirtækið.“
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands sagði í samtali við mbl.is að í grunninn væri flugfreyjufélagið að mæta hagræðingarkröfu Icelandair: „Flugfreyjufélagið er ekki með miklar kröfur í þessum samningi. Við erum að taka þátt í að aðstoða félagið á þessum erfiðum tímum,“ sagði hún.