400 þúsund króna eigin áhætta

Starfsfólk Náttúruhamfaratrygginga Íslands er komið til Seyðisfjarðar.
Starfsfólk Náttúruhamfaratrygginga Íslands er komið til Seyðisfjarðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsfólk Náttúruhamfaratrygginga Íslands er komið til Seyðisfjarðar til að kanna aðstæður vegna aurskriðanna sem þar hafa fallið, átta sig á umfanginu og undirbúa skipulagningu á matsstörfum.

„Við erum í samstarfi við heimamenn og lögreglu og almannavarnir. Það er gætt fyllstu varúðar og við fylgjum þeim leiðbeiningum sem okkur eru settar hérna. Við erum fyrst og fremst að átta okkur á því hvernig matsstörfin munu fara fram og heimila aðgerðir til að forða frekara tjóni vegna þess að það er okkar hlutverk líka,“ greinir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, frá.

„Til þess að koma í veg fyrir að eignir skemmist frekar þarf að hreinsa í burtu aur og vatn og slíkt og það er fullt af fólki komið af stað í að gera það. Þetta er kostnaður sem er hluti af vátryggingunni og þarf að vinnast í samráði við okkur.“

Varðandi bótagreiðslur þá er brunabótamat húss vátryggingaverðmæti eignanna. Fólk ber 400 þúsund króna eigin áhættu á tjóni eins og því sem hefur orðið á Seyðisfirði. Hitt er metið út frá ástandi og skemmdum, útskýrir hún.

Ástandið er slæmt á Seyðisfirði.
Ástandið er slæmt á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Smávægilegar aurskriður algengar

Aðspurð segir Hulda algengt að einhverjar smávægilegar aurskriður verði og að stofnunin vátryggi þá tjón af völdum þeirra. Hún segir aurskriðurnar á Seyðisfirði líklega þær stærstu í langan tíma á Íslandi en nefnir að tjón hafi orðið á Austfjörðum vegna aurskriða, á Siglufirði og fleiri stöðum á síðustu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert