Ógerlegt að verja atvinnuhúsnæði á Seyðisfirði

Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Brunabótamat þess atvinnuhúsnæðis á Íslandi, sem ekki er mögulegt að verja fyrir ofanflóðum, nemur um 5,5 milljörðum. Stærstur hluti þeirra eigna er á Seyðisfirði, eða sem nemur um 4,5 milljörðum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur í samráði við Veðurstofu Íslands lagt fram.

Er skýrslunni ætlað að skapa yfirsýn yfir þann ofanflóðavanda sem við er að eiga á atvinnusvæðum í ofanflóðahættu og hefur hún verið lögð inn í samráðsgátt.

Allt frá árinu 1996 hefur ofanflóðanefnd lagt áherslu á að verja íbúðarhúsnæði í þéttbýli. Nýja skýrslan fjallar aftur á móti um tíu þéttbýlisstaði þar sem atvinnuhúsnæði er á C-svæði. Á slíkum svæðum skal öryggi tryggt með varanlegum varnarvirkjum eða uppkaupum íbúðahúsnæðis.

Sár eftir aurskriðuna stóru sem féll í desember 2020 á …
Sár eftir aurskriðuna stóru sem féll í desember 2020 á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meiri áhætta leyfð í atvinnuhúsnæði

Meiri áhætta er leyfð í atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsum, þar sem viðvera fólks er mun minni, eða aðeins 40% á móti 75% í heimahúsi.

Þeir möguleikar sem skýrsluhöfundar velta upp eru: 

  1. Reisa varnir sem gera stöðuna að einhverju leyti skárri og eyða til þess fjármunum sem geta numið töluverðum hluta af verðmæti eignanna.
  2. Kaupa upp húsin.
  3. Gera ekkert og láta þau standa áfram á hættusvæðum.

Hægt verður að senda umsagnir og ábendingar um efni skýrslunnar í samráðsgátt stjórnvalda til 15. nóvember næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert