Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir þyrlu Landhelgisgæslu Íslands tilbúna og til taks ef þörf krefur. Hún segir þegar búið að virkja allt mögulegt viðbragð sem þarf til að tryggja öryggi fólks og koma fólki í skjól.
Áslaug segir þegar hafi verið komið á hóp til að vera tilbúin að greina stöðuna og bregðast við þeirri neyð og eyðileggingu sem þarna er.
„Það eru auðvitað björgunarsveitir, lögreglufólk og Landhelgisgæslan,“ segir Áslaug.
Eins og greint var frá í dag er Týr, varðskip Landhelgisgæslunnar, á leiðinni til Seyðisfjarðar. Til viðbótar segir Áslaug þyrlu Landhelgisgæslunnar vera tilbúna.
„Allt kapp er nú lagt á að rýma Seyðisfjörð og einnig hluta af Eskifirði, eftir að hættustig var boðað á Eskifirði. Þyrlan er tilbúin og til taks ef þörf krefur. Almannavarnir eru meðvituð um það og munu kalla eftir allri þeirri aðstoð sem getur þurft næstu klukkutíma og næstu daga,“ sagi Áslaug Arna.
Gerir þú ráð fyrir að fara austur?
„Við þurfum að leyfa fólki að klára bregðast við þeirri stöðu sem er uppi og koma fólki í skjól. Svo skoðum við það.
Hugur okkar hjá fólkinu fyrir austan, við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða í þessari stöðu og styðja við með öllum mætti. Það er auðvitað stutt í jól og hugur okkar er hjá fólki fyrir austan og björgunaraðilum næstu klukkutímana og daga.“