Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun halda austur á Seyðisfjörð á mánudag ásamt öðrum fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Þetta segir hún í viðtali við mbl.is.
„Það er öllum óskaplega brugðið. Þetta var auðvitað gríðarlega stór skriða, en um leið er kraftaverk að enginn hafi skaðast í þessu og að fólk hafi sloppið undan,“ segir Katrín. Hún segir mikið tjón hafi þó orðið á menningarminjum á svæðinu.
Mikið tjón varð á gömlum húsum sem hafa nýlega verið endurgerð og virðast hafa orðið töluverðar skemmdir á Tækniminjasafninu.
„Þetta er augljóslega mikið tjón fyrir menningarminjar og sögu, sem og sveitarfélagið allt,“ segir Katrín.
Í gær var settur saman samstarfshópur ráðuneyta sem mun meta tjónið af hamförunum og hvað verður bætt með náttúruhamfaratryggingu. Katrín segir að sú vinna sé þegar farin af stað.
Þá mun forsætisráðherra, ásamt öðrum í ríkisstjórninni, fara austur og meta ástandið á mánudaginn. Katrín segir það enn vera ótryggt og því verði ekki haldið austur fyrr en eftir helgi.
Að mati forsætisráðherra er hlutverk ríkisstjórnarinnar þríþætt í náttúruhamförum sem þessum.
Í fyrsta lagi þurfi ríkisstjórnin að tryggja neyðaraðstoð og sjá til þess að unnið sé úr þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi. Þar hafi björgunarsveitir, Rauði krossinn, almannavarnir og Landhelgisgæslan gegnt lykilhlutverki.
Í öðru lagi þurfi stjórnvöld að meta tjónið svo hægt verði að grípa til frekari langtímaaðgerða, en í þriðja lagi þurfi að tryggja varnir við sambærilegum náttúruhamförum til lengri tíma.
„Skriðuföll eru ekki nýlunda á Seyðisfirði, en það er ansi langt síðan við höfum séð svona hamfarir á þessu svæði,“ segir Katrín. „Það skiptir auðvitað miklu máli hvað verður gert til lengri tíma þegar kemur að vörnunum í fjallinu og það er eitthvað sem við þurfum að leggja línurnar með.“
Katrín segir að eins og svo oft áður þegar svona hamfarir ganga yfir skynji hún hvað Íslendingar standi saman sem einn maður þegar á reynir.
„Það snertir mann að sjá hvað samstaðan er mikil og hvað fólk hjálpaðist vel að. Það er auðvitað ofboðslega erfið staða fyrir þessa íbúa sem eru fjarri sínum heimabæ, þannig hugur manns er hjá þeim sem eru fjarri sínum heimilum og í mikilli óvissu, þá er hughreystandi að sjá samtöðuna og samhjálpina á svæðinu.“