Bretar fá ekki að ferðast til Íslands eftir áramót

Vegna kórónuveirufaraldursins eru ónauðsynleg ferðalög til Íslands frá löndum utan …
Vegna kórónuveirufaraldursins eru ónauðsynleg ferðalög til Íslands frá löndum utan ESB og Schengen og örfárra annarra ríkja óheimil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðamenn frá Bretlandi munu að óbreyttu ekki fá að ferðast til Íslands frá og með ára­mót­um. Þá lýk­ur aðlög­un­ar­tíma­bili Breta úr Evr­ópu­sam­band­inu og ríkið fær stöðu „þriðja rík­is“, þ.e. rík­is sem ekki til­heyr­ir Evr­ópu­sam­starf­inu.

Vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins eru landa­mæri Evr­ópu­sam­bands- og Schengen-ríkja flest lokuð fyr­ir ferðamönn­um utan þess­ara sömu ríkja með ör­fá­um und­an­tekn­ing­um fyr­ir ríki þar sem staða kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins er góð. Hið sama gild­ir um landa­mæri Íslands.

Bannið við komu Breta er því öðrum þræði af­leiðing kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins, en ekki var­an­leg af­leiðing út­göngu Breta úr Evr­ópu­sam­band­inu. Þegar ferðatak­mörk­un­um vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins verður aflétt munu Bret­ar vænt­an­lega geta ferðast hingað til lands eins og aðrir, þótt þeir geti ekki sest hér að án land­vist­ar­leyf­is ólíkt því sem nú er.

Ákvörðunin á borði stjórn­valda

Jón Pét­ur Jóns­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá landa­mæra­sviði rík­is­lög­reglu­stjóra, seg­ir að um ára­mót verði ónauðsyn­leg ferðalög frá land­inu til Íslands því bönnuð. Íslensk­um rík­is­borg­ur­um og öðrum sem bú­sett­ir eru hér á landi yrði þó ávallt hleypt inn í landið.

„Menn héldu kannski að það yrðu gerðir ein­hverj­ir samn­ing­ar um þetta en það virðist ekki stefna í það,“ seg­ir Jón Pét­ur.

Íslensk­um stjórn­völd­um ber ekki skylda til að fylgja ferðatak­mörk­un­um Evr­ópu­sam­bands­ins en tek­in var ákvörðun um það í mars að fylgja þeim í einu og öllu. Því hef­ur ekki verið breytt þrátt fyr­ir að Íslend­ing­ar hafi tekið upp aukn­ar ráðstaf­an­ir á landa­mær­um með tvö­faldri sýna­töku og sótt­kví allra sem hingað til lands koma. 

Spurður hvort hægt væri að breyta regl­um fyr­ir ára­mót, seg­ir Jón Pét­ur að slíkt væri í hönd­um stjórn­valda. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert