Gekk vel að eiga við óveðrið

Unnið að viðgerð á Sultartangalínu 3 en hún bilaði í …
Unnið að viðgerð á Sultartangalínu 3 en hún bilaði í óveðrinu í hálendisbrúninni skammt frá Búrfellsstöð. Ljósmynd/Þóroddur Þóroddsson

Ef nýtt tengivirki Landsnets og afhendingarstaður raforku við Lækjartún, skammt frá Þjórsárbrú, hefðu verið komin í gagnið í óveðrinu í vikunni hefði ekki komið til þess víðtæka straumleysis sem varð á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. „Þetta undirstrikar mikilvægi þeirra framkvæmda sem við erum með um allt land til að auka afhendingaröryggi raforku,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, en veðrið olli talsverðu tjóni á flutningskerfinu enda með verri veðrum sem gengið hafa yfir.

Forstjórinn er ánægður með hvernig gekk að mæta ógnunum í óveðrinu, þótt um 20 línur hafi slegið út og sumar oft, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. „Við höfum gott skipulag þegar við búum okkur undir óveður. Kom það í ljós núna og okkur gekk mjög vel að eiga við ástandið, miðað við aðstæður. Þar skiptir miklu máli að hafa þrautþjálfað starfsfólk auk þess sem við höfum gott samstarf við almannavarnir. Línurnar fara inn og út og þegar ekki eru skemmdir er mikilvægt að setja þær inn eins fljótt og mögulegt er. Það gekk mjög vel,“ segir Guðmundur.

Hann bætir því við að raforkukerfið sjálft sé ekki að mæta sívaxandi kröfum um afhendingaröryggi og hluti af því sé það veikburða að það þoli illa það mikla rok sem var í óveðrinu í vikunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert