„Ekki eina vinnumansalið sem er í gangi“

Frá aðgerðum lögreglu í síðustu viku.
Frá aðgerðum lögreglu í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) hefur borist þónokkrar tilkynningar vegna gruns um misneytingu vinnuafls í kjölfar lögregluaðgerðar í síðustu viku þar sem fyrirtækjum í eigu Davíðs Viðarssonar, áður Quang Lé, var lokað vegna gruns um vinnumansal og önnur brot.

Þetta segir Saga Kjartansdóttir, verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits hjá ASÍ.

Tilkynningarnar eru misalvarlegar og kveðst ASÍ munu bregðast strax við hluta þeirra.

Halldór Oddsson, lögfræðingur ASÍ, telur nokkuð öruggt að málið sem tengist fyrirtækjum Davíðs, sé ekki eina hugsanlega mansalsmálið á Íslandi. 

„Okkar mat er það að þetta sé ekki eina vinnumansalið sem er í gangi. Undanfarna mánuði og ár hafa komið upp mál sem að við teljum að beri skýr merki um vinnumansal.“

Halldór Oddsson lögfræðingur ASÍ.
Halldór Oddsson lögfræðingur ASÍ. mbl.is/Unnur Karen

Vilja ekki skilja fólk eftir í verri stöðu

„Bæði við hjá ASÍ og stéttarfélögin erum að fá mikið af ábendingum. Þær eru misalvarlegar og margar eru eitthvað sem við fylgjum eftir með vinnustaðaeftirliti. Og ég held að það sé svolítið þannig að fólk og almenningur vill ekki endilega vera að hrófla við málum ef að það heldur að það geri þá bara stöðu fólks enn verri en hún er,“ segir Saga í viðtali við mbl.is.

„Ég held að það sé bara sameiginlegt hjá okkur öllum, líka okkur í verkalýðshreyfingunni. Það vill ekki endilega vera að senda tilkynningu ef að það trúir því ekki að neitt gerist nema viðkomandi verði vísað úr landi. Þess vegna held ég að við séum að fá aukningar í ábendingum af því að nú er kannski búið að sýna og sjá að það er eitthvað kerfi sem að grípur fólk og þá munum við fá fleiri ábendingar.“

Þá sé líka eins gott að það sé gott kerfi til staðar svo hægt sé að grípa fleira fólk en nú sé komið.

Saga Kjartansdóttir verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ og stéttarfélaganna.
Saga Kjartansdóttir verkefnastjóri vinnustaðaeftirlits ASÍ og stéttarfélaganna. Ljósmynd/Aðsend

Kortleggja ábendingarnar

Að sögn Sögu er nú verið að kortleggja þær ábendingar sem hafa borist.

„Einhverjum erum við að bregðast við strax þessa dagana og þetta munu vera næstu vikur hjá okkur, að fylgja þessum ábendingum eftir. Auðvitað þegar að það er grunur um mansal þá tilkynnum við lögreglu það.“

Saga segir ASÍ þó ávallt fylgja ábendingunum eftir en að allt slíkt sé gert í samstarfi við lögreglu enda sé mikilvægt að spilla ekki rannsóknarhagsmunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka