Blóðugur ferill Ragnars Jónssonar

Ragnar tekur sýni úr blóðbletti á vegg við vettvangsrannsókn. Blóðferlarannsóknir …
Ragnar tekur sýni úr blóðbletti á vegg við vettvangsrannsókn. Blóðferlarannsóknir og -greining er allt að því óendanlega víðfeðmt fag þar sem mannsævi endist ekki til að verða fullnuma. Ljósmynd/Aðsend

„Fyrir það fyrsta leitaði nú hugurinn ekki í Verslunarskólann úr Hagaskólanum en vinahópurinn fór allur þangað. Ég var farinn að gæla við leiklist og ætlaði alltaf í MH.“ Þetta segir Ragnar Jónsson, lögreglufulltrúi í tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem man tímana tvenna, skrýddist einkennisbúningnum svarta fyrst árið 1990 eftir námið í Verslunarskólanum.

Eðlilega hefur margt gerst síðan í lífi hans – en þetta viðtal fjallar um blóð. Að miklu leyti.

Ragnar Jónsson tekur nú sæti sem forstöðumaður fyrir Evrópu í framkvæmdastjórn Alþjóðasamtaka blóðferlasérfræðinga, eða International Association of Bloodstain Pattern Analysts, IABPA eins og það skammstafast.

Er Ragnar fyrstur Norðurlandabúa til að gegna formennsku fyrir hönd Evrópu í 40 ára sögu samtakanna. Sjaldan er þó ein báran stök því Ragnar á enn fremur sæti í stjórn norrænna blóðferlafræðinga enda er hann fremsti sérfræðingur landsins á sviði blóðferlarannsókna í sakamálum en að baki þekkingar hans liggur ómæld rannsóknarvinna og þaulsætni á námskeiðum víða um heim sem nær nánast yfir síðasta aldarfjórðung.

Ekki tómur leikur og gleði

Allt hófst þetta þó eftir að Ragnar lauk námi frá Verslunarskólanum á fimm árum, svo gaman þótti honum þar segir hann glettnislega. Hann er nýkominn heim af útkallsvakt og búinn að koma sér þægilega fyrir enda langt símtal fram undan.

„Pabba, sem var búinn að vera lögga frá 1958, fannst kominn tími til að drengurinn prófaði sumarstarf hjá löggunni og kynntist annarri hlið á mannlífinu, það væri ekki bara tómur leikur og gleði,“ segir Ragnar frá. Hann sat vikulangt námskeið fyrir sumarafleysingamenn í lögreglu snemmsumars 1990 og ferillinn hófst með meinlegum athugasemdum nýrra vinnufélaga.

Með lögum skal land byggja. Þrír ættliðir við löggæslu, frá …
Með lögum skal land byggja. Þrír ættliðir við löggæslu, frá vinstri Ragnar, Jón Pétursson hástökkvari faðir hans, sem hóf störf í lögreglunni 1958 og starfaði rúm 40 ár, og sonurinn Davíð Fannar sem hóf nám í lögreglufræðum 2022. Ljósmynd/Aðsend

„Bíddu, þú ert sonur Jóns Péturssonar hástökkvara og ert svona lítill,“ rifjar Ragnar glettnislega upp. Hann þótti þó kraftalega vaxinn og lokadómurinn var „jæja, það er sterkt í þér strákur, en vantar dálítið upp á hæðina“. Svo mörg voru þau orð. „En ég skreið þarna inn á þessum tíma, þarna skipti hæð og styrkur enn töluverðu máli til að komast í lögguna,“ rifjar lögreglufulltrúinn upp. Ungi maðurinn tók til við lögreglustarfið en komst ekki í Lögregluskóla ríkisins í fyrstu umferð. Það gekk þó eftir haustið 1991.

„Ég heillaðist af þessu starfi, að enginn dagur væri eins og maður væri að láta eitthvað gott af sér leiða,“ segir Ragnar sem hóf störf í lögreglunni í Kópavogi þar sem umferðarmál voru veigamikill hluti lögreglustarfsins. Höfuðborgin tók þó fljótlega við, lögreglan í Reykjavík sem þá var, áður en höfuðborgarsvæðið gekk í eina löggæslusæng.

Frí sjöttu hverja helgi

„Þá var maður bara staddur í miðbænum, átök hverja helgi og kom býsna oft fyrir að eitthvað vantaði á einkennisbúninginn eftir átök og stimpingar,“ segir Ragnar og rifjar upp vaktakerfi sem blaðamaður man glöggt að mörgum félögum hans í lögreglunni á sínum tíma þótti óskiljanlegt.

„Já, það var 2-2-2-kerfið. Maður átti frí sjöttu hverja helgi og vissi í raun ekki hvort maður var að koma eða fara. Ég var alltaf þreyttur, fyrstu þrjú-fjögur árin í löggunni var ég þreyttur,“ segir Ragnar í léttum tón enda þarf ekki langt samtal til að átta sig á að þar fer maður sem kímnigáfan hefur ekki látið ósnortinn.

Miðbæjarlöggæslan stóð þó ekki ýkjalengi og kannski eins gott því Ragnar var „kominn með ógeð á miðbænum 23 ára gamall“ eins og hann orðar það. „Níutíu og fimm gerðist ég svo hverfislögga, fór lengst upp í Breiðholt, eins langt frá Vesturbænum mínum og ég gat komist, og þar var okkur treyst fyrir því að rannsaka unglingaafbrot, ekki bara vera búningalögga heldur fá að klára svona minni þjófnaðarmál,“ segir Ragnar sem uppskar fljótt traust íbúanna og eignaðist félaga meðal ungviðisins í Breiðholti enda opinn og einlægur. Það kenndi hástökkvarinn faðir hans honum.

„Hann var rúm fjörutíu ár í löggunni og fór alltaf með bút úr Einræðum Starkaðar, „Þel getur snúizt við atorð eitt./Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ Hann sagði að ef ég gæti tileinkað mér þessar ljóðlínur yrði ég farsæll lögreglumaður. Það væri ekki okkar að dæma fólk og ekki okkar að tala niður til fólks því við vissum aldrei hvað fólkið hefði gengið í gegnum. Þetta hef ég alltaf reynt að halda í heiðri og tekist í 99 prósentum tilfella,“ útskýrir Ragnar af veganesti föður síns.

„Maður lærði svo mikið af þeim eldri“

„Það þýðir ekkert að missa stjórn á sér, þá er starfið farið og maður kannski kominn með dóm líka. Þeim mun þjálfaðri sem við erum því öruggari erum við, það vantaði kannski tíu-tuttugu sentimetra upp á að ég væri eins og stóru löggurnar,“ segir Ragnar og hláturinn kumrar niðri í honum, „en þá var maður bara þeim mun sneggri og snarpari og maður kunni ýmislegt fyrir sér,“ heldur hann áfram en á tíma Ragnars sem lögreglunema var júdó grundvallarsjálfsvarnaríþrótt íslenskrar lögreglu og kenndi Sigurður Bergmann, lögreglumaður, júdókappi og ólympíufari, lögreglunemum.

Í París 2019 við fyrirlestrahald á námsþingi Evrópu í blóðferlafræðum.
Í París 2019 við fyrirlestrahald á námsþingi Evrópu í blóðferlafræðum. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna var ég bara rúmlega tvítugur en maður var oft á bíl með mönnum yfir fertugu og jafnvel fimmtugu og maður lærði svo mikið af þeim eldri, til dæmis hvernig þeir „settluðu“ mál. Þarna var sest niður og hellt upp á kaffi og málin bara rædd út þegar farið var í heimahús. Bíllinn var upptekinn kannski í tvo tíma en málin voru afgreidd oftast nær skýrslulaust hvort sem það var farsælasta lausnin eða ekki,“ segir Ragnar og leggur áherslu á að tímarnir hafi verið allt aðrir á tíunda áratug síðustu aldar.

„Nú hreyfa lögreglumenn sig ekki nema kveikja á búkmyndavélum og allir í kringum þig rífa upp síma og taka upp allt sem þú segir og gerir. Þetta er ekki öfundsvert fólk sem er að störfum í dag og þetta er mjög breyttur veruleiki núna,“ segir hann.

Ekki leið á löngu þar til vinnubrögð Ragnars við vettvangsrannsóknir mála í Breiðholti vöktu athygli sem náði að lokum alla leið í Auðbrekku í Kópavogi, í húsakynni Rannsóknarlögreglu ríkisins sem þá var og hét.

Nýr tónn í innbrotaskýrslum

„Í ársbyrjun 1997 fæ ég svo boð frá Herði Jóhannessyni yfirlögregluþjóni sem spyr hvort ég vilji ekki koma yfir til þeirra í mánaðartíma og prófa rannsóknir. Hann hafði þá verið að hrósa mér fyrir einhverjar innbrotaskýrslur sem ég hafði verið að skrifa og þóttu þær mjög nákvæmar sem væri gott fyrir hans rannsakara. Þeir þyrftu ekki að byrja á að leita að ýmsum grunnupplýsingum,“ rifjar Ragnar upp af för hans yfir í Kópavoginn fyrir hátt í þremur áratugum.

„Þarna voru félagar mínir á vöktunum að gera grín að mér fyrir hvað ég eyddi miklum tíma í að skrifa skýrslur, væri of nákvæmur, en ég var kominn með hrós frá RLR,“ segir Ragnar. Á vettvangi innbrota velti hann því fyrir sér og skráði í skýrslur sínar hvar líklegast hefði verið farið inn og hvar út auk þess að velta fyrir sér líklegum innbrotsmönnum með tilliti til þess hverju var stolið.

Fjórir ungir menn að útskrifast úr gamla Lögregluskóla ríkisins sem …
Fjórir ungir menn að útskrifast úr gamla Lögregluskóla ríkisins sem var og hét vorið 1993. Ljósmynd/Aðsend

Slík vinna heillaði Ragnar sem er grúskari fram í fingurgóma. „Svo það varð úr að ég skipti við einn gamlan ref sem fór á hverfisstöðina mína og ég til RLR. Eftir nokkra daga fæ ég bunka í hendurnar, fullt af óupplýstum innbrotum á Seltjarnarnesi, ég hafði búið í Vesturbænum og kannaðist vel við Nesið,“ segir hann.

Er það Ragnari í fersku minni þegar hann ljósritaði götukortið úr símaskránni, sem líkast til er lesendum af léttasta skeiði minnisstætt, merkti þar inn á hvar innbrotin höfðu átt sér stað og kom auga á ákveðið mynstur. „Ég hugsaði með mér að þetta væri bara verk örfárra manna, sama gengisins sem hefði herjað á Nesið á tveimur mánuðum.“

Upplýstu 21 innbrot á sex tímum

Eftir frumskoðun sína lagði Ragnar til að lögreglumenn færu á þremur bílum og handtækju þrjá unga menn. „Ég var kominn með eitt nafn, sem var aftan á tékka sem hafði verið stolið á bæjarskrifstofunni, og fór að spyrjast fyrir um þann unga mann, ræddi til dæmis við sjoppueigendur sem fljótlega bentu mér á hann og tvo vini hans, pilta sem eitthvert vesen var á,“ segir Ragnar frá.

Einn þessara pilta hafi reynt að framselja stolinn tékka og það orðið honum að falli. „Það var ástæðan fyrir að við gátum stokkið á þá svo við gerum það og handtökum þessa þrjá ungu menn. Til að gera langa sögu stutta vorum við búnir að upplýsa 21 af 22 innbrotum sex tímum seinna. Við fylltum gamla fundarsalinn í Auðbrekkunni af þýfi úr 21 innbroti. Þetta var í febrúar 1997 og RLR var lögð niður sama ár – en ég vil ekki segja að það hafi verið mér að kenna,“ segir Ragnar Jónsson og hlær smitandi hlátri.

Hann átti ekki afturkvæmt á götuna eftir innbrotaverkefnið á Seltjarnarnesi en um sumarið var hann hvattur til að sækja um stöðu rannsóknarlögreglumanns við nýtt embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, auðgunarbrotadeild. „Sem ég og gerði og var þar í tvö ár. Aftur kom það þá til mín að ég þætti nákvæmur skýrslugerðarmaður og ég var fenginn í aðra deild sem hét brot gegn lífi og líkama, þar á meðal kynferðisbrot, alvarlegar líkamsárásir og andlátsmál,“ segir Ragnar frá.

Þar hafi nákvæmni við lýsingar dánarmerkja eða atburðarás ofbeldismála verið alfa og ómega hvers máls og sá dagur kom tveimur og hálfu ári síðar að Ragnars beið nýr vettvangur. Eftir tvö og hálft ár var komið að máli við hann og honum tjáð að slíkan grúskara gæti tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vel nýtt sér. Þetta var sumarið 2001.

Líkfundarmálið, sem upp kom í febrúar 2004 þegar lík óþekkts …
Líkfundarmálið, sem upp kom í febrúar 2004 þegar lík óþekkts manns fannst í höfn á Austurlandi, er mörgum í fersku minni. Myndin er frá rannsókn í íbúðinni í Furugrund í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Dánarmerki og dauðarannsóknir

„Þetta fannst mér gríðarlegur heiður. Maður leit upp til tæknideildarinnar, fólks sem væri í stærstu og erfiðustu málunum. Ég hugsaði með mér að þarna fengi ég að læra ljósmyndun og þetta yrði endalaus uppspretta af lærdómi,“ rifjar Ragnar upp, á þessum tíma nýskriðinn yfir þrítugt og búinn að slíta barnsskónum í lögreglustarfinu.

Ekki hafði tæknideildarmaðurinn nýi verið lengi starfinu þegar hann hélt til Jacksonville í Flórída þar sem hann sat námskeið í dánarmerkjum, dauðarannsóknum og sárafræði við Institute of Police Technology and Management, IPTM. Eins og gefur að skilja er Ragnar beðinn að gera grein fyrir námskeiði titluðu eins og eitthvað upp úr Stephen King.

„Þetta var alveg magnaður skóli, lögregluháskóli í Jacksonville sem býður endalaust af kúrsum um hitt og þetta, meðal annars í manndrápsrannsóknum og tæknirannsóknum. Svo kemur þarna maður frá NCIS [Naval Criminal Investigative Service] einn morguninn og spyr okkur: „Hvað vitið þið um blóð?“

Svo fræddi hann okkur um að til væri sérstök grein innan vettvangsrannsókna sem snerist bara um hvernig blóð slettist og hvernig það hagar sér þegar það skilur sig frá líkamanum og lendir á einhverju yfirborði,“ rifjar lögreglufulltrúinn upp af fyrstu kynnum við þá grein sem átti eftir að verða hans ær og kýr næstu áratugina.

Faðir blóðferlarannsókna

„Ég fékk þarna alveg gæsahúð og hugsaði með mér „vá, þetta er áskorun!“, ég hef alltaf haft mjög gaman af því að leysa gátur og þrautir og þarna var komin grein sem gekk út á að vera með látna eða helsærða manneskju sem gat ekki talað – en ummerkin gátu það,“ segir Ragnar af smitandi áhuga þess sem fundið hefur sína fjöl í lífinu.

Út frá ummerkjum á vettvangi mætti leiða fram hvað hefði gerst, hvernig og hvað hefði ekki gerst, en það síðarnefnda getur að sögn Ragnars haft mikla þýðingu við rannsókn manndrápsmála eða annarra þar sem alvarlegt ofbeldi hefur átt sér stað. „Strax og ég kem heim finn ég Bloodstain Institute í Corning í New York þar sem forstöðumaðurinn var faðir blóðferlarannsókna, Herbert Leon MacDonell, sem lést bara fyrir nokkrum árum,“ rifjar Ragnar upp.

Aðstoðarkennari MacDonell var T. Paulette Sutton, einn höfunda stærsta fræðirits sem skrifað hefur verið um blóðferlarannsóknir og Ragnar kallar sína biblíu. „Konan mín var nú ekki hrifin þegar ég var með hana á náttborðinu í tvö ár, hún sneri henni alltaf á hvolf,“ segir Ragnar glaðhlakkalega og kveður frúnni ekki hafa litist alls kostar á kápumynd verksins, en þetta var ritið Principles of Bloodstain Pattern Analysis: Theory and Practice.

„Þannig að ég var ákaflega heppinn í náminu framan af, að fá frumkvöðla í faginu sem kennara,“ segir Ragnar og blaðamaður spyr hann hvernig það hafi gengið fyrir sig að komast á þessi námskeið úr fullu starfi tæknideildarmanns.

Ragnar og Björgvin Sigurðsson rannsaka bifreið í tengslum við líkfundarmálið, …
Ragnar og Björgvin Sigurðsson rannsaka bifreið í tengslum við líkfundarmálið, leita þar að lífsýnum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég sóttist eftir þessu,“ svarar Ragnar þegar, „þetta var þekking, eða verkfæri, sem við höfðum ekki hérna. Eldri tæknideildarmenn vissu af þessu, höfðu heyrt um þetta, en enginn hafði numið þetta. Svo ég fæ kollega minn með mér og við skrifum lögreglustjóra bréf, segjum að miðað við það sem ég hafði lært árið áður í Jacksonville gæti þetta nýst okkur í alvarlegri málum, þar sem væru blóðsúthellingar,“ greinir Ragnar frá.

Mál Sri Rahmawati 2004

Þetta hafi yfirstjórn lögreglunnar samþykkt, svo þeir samstarfsmenn, Ragnar og Ómar Þorgils Pálmason rannsóknarlögreglumaður, héldu til New York-ríkis á námskeið sem Ragnar segir að hafi einfaldlega verið magnað. „Þarna var fólk frá [bandarísku alríkislögreglunni] FBI, Secret Service [lífvarðasveit Bandaríkjaforseta] og hvaðanæva úr Bandaríkjunum og þarna myndaðist vinskapur við fólk sem ég held enn þann dag í dag,“ segir Ragnar frá.

Ekki leið á löngu þar til fyrsta sakamálið á Íslandi kom upp þar sem lögregla beitti blóðferlagreiningu við rannsókn máls en það var í máli Sri Rahmawati sem myrt var í íbúð við Stórholt sumarið 2004. „Þar sáum við merki um að reynt hefði verið að fela ummerki, en hann gleymdi að þrífa undir hillum og inni í skápum þannig að við gátum notað strengjaaðferðina, sem einhverjir sem horfa á Dexter-þættina kannast kannski við, og við gátum séð nákvæmlega hvar í herberginu hún hafði hlotið högg,“ útskýrir Ragnar.

Tæknideildin beitti við þá rannsókn efninu luminol sem myndar bláleitan ljóma þegar það gengur í samband við járnið í blóðinu „og herbergið lýstist allt upp. Gangurinn lýstist upp og skrifborðsstóll sem var í herberginu lýstist upp þannig að maður sá atburðarásina myndast fyrir framan sig. Næmnin er svo rosaleg í luminol og svo er til efni sem heitir Bluestar og gerir nákvæmlega það sama. Efnafræðin og tæknin eru alltaf að verða öflugri,“ segir blóðsérfræðingurinn.

Og þið getið verið að fást við mjög gamlar blóðslettur, er ekki svo?

„Jú. Elsta dæmið heyrði ég um í Hollandi árið 2015 frá fyrirtæki sem heitir Loci Forensics, þar er yfirmaður sem er blóðferlasérfræðingur og efnafræðingur,“ svarar Ragnar og segir frá efnablöndu sem kölluð er lumiscene og er gerð úr luminol og fluorescein.

„Þeir leystu um sjötíu ára gamalt mannshvarf úr gömlum hermannabröggum í Þýskalandi sem breski herinn var með eftir seinna stríð. Þar hvarf þýsk kona og var breskur liðsforingi lengi vel grunaður en tókst aldrei að sanna það. Svo þegar var verið að rífa mundi einhver eftir þessu máli og óskaði eftir að fá hollenska sérfræðinga með þetta nýja efni sem alltaf var verið að auglýsa,“ segir Ragnar og á við lumiscene.

Parketið lýstist upp eins og flugbraut

Þetta hafi verið gert og og viti menn, undir gólflista sem verið hafði bak við skrifborð í einu horni braggans kom svörun. Blóð frá tímum síðari heimsstyrjaldar. „Þar er tekið sýni og þetta reynist vera mennskt blóð. Til að gera langa sögu stutta er haft samband við afkomanda konunnar og DNA-sýni fengið hjá honum og þetta reynist vera blóð úr konunni sem hvarf,“ segir Ragnar frá.

Hann nefnir líkfundarmálið sem upp kom í febrúar 2004 þegar lík hins litáíska Vaidasar Juceviciusar fannst í höfninni í Neskaupstað og rannsókn málsins leiddi lögreglu að íbúð við Furugrund í Kópavogi. „Þá lýstust parketborðin upp eins og flugbraut að nóttu til þegar við notuðum luminol. Við náðum þá bara í kúbein, slitum upp nokkrar fjalir, tókum svo sýni á bómullarpinna og það reyndist vera mennskt blóð úr Vaidasi Jucevicius. Samt voru þeir búnir að þrífa íbúðina margoft,“ lýsir Ragnar.

Hann segir töluvert þurfa til að tæknideildin dragi luminol-ið fram, „en þegar það er notað og gefur svörun á blóð þá veit maður að hér hefur eitthvað gerst og það hefur verið reynt að afmá ummerki. Næsta spurning er þá hvað hafi gerst og úr hverjum blóðið sé. Það er næsta stig rannsóknarinnar,“ segir Ragnar.

Næst á námsferlinum var framhaldsnámskeið í blóðferlum við Henry C. Lee-stofnunina í sakamálarannsóknum, The Henry C. Lee Institute of Forensic Science í New Haven í Connecticut vestanhafs. Þangað hélt Ragnar árið 2007 á tveggja vikna langt stíft námskeið í fræðunum.

Ragnar tekur við útskriftarskírteini haustið 2002 frá Herbert Leon MacDonell …
Ragnar tekur við útskriftarskírteini haustið 2002 frá Herbert Leon MacDonell sem kallaður hefur verið faðir blóðferlarannsókna og -fræða og er stofnandi IABPA. Ljósmynd/Aðsend

Myrtur með slökkvitæki

„Þetta var kennt frá morgni og til fimm-sex á daginn og lauk svo með skriflegu prófi auk þess sem maður þurfti að vinna lokaverkefni sem þrír dómarar lögðu svo mat á. Þú þarft að sanna hæfni þína og þekkingu á efninu,“ segir Ragnar. Þegar hann kom heim frá Connecticut gekk hann nánast beint inn í manndrápsmál þar sem þekkingar hans þurfti við.

„Ég er nýkominn frá New Haven þegar maður er myrtur með slökkvitæki á Hringbraut,“ segir hann frá. „Ég var í sundi með dóttur minni man ég og þegar ég kom upp úr lauginni er ég með fullt af ósvöruðum símtölum. Ég hringi til baka og kem svo dótturinni heim, stutt að fara þaðan á vettvang þar sem ég bý úti á Nesi. Þarna er allt í blóði fyrir ofan rúmgafl í herbergi og það fyrsta sem ég hugsaði með mér var að þetta væri alveg eins og lokaverkefnið mitt í New Haven,“ segir Ragnar af Hringbrautarmálinu.

Hann segir að mörgu að hyggja þegar komi að rannsóknum blóðferla, til dæmis í herbergjum, en Ragnar á einnig að baki námskeið í blóði á hreyfingu, til dæmis útönduðu blóði og því sem haft getur áhrif á feril þess. „Blóð ferðast á ákveðinn hátt. Þú getur verið í tómu dauðu herbergi en ef þar er opinn gluggi eða svalahurð, einhver hreyfing á loftinu í herberginu, þá getur það breytt því hversu langt agnarsmáir blóðdropar geta ferðast,“ útskýrir Ragnar.

Hann segir ótal breytur koma inn í hreyfingu blóðs utan líkamans og nefnir dæmi. „Við vorum með mál í Svíþjóð í fyrra þar sem ökumaður var skotinn í bíl og þrír eða fjórir ungir menn hlupu út. Þar var spurningin hver skotmaðurinn hefði verið,“ segir hann frá. Við þá rannsókn hafi þurft að taka inn í myndina hvort kveikt hefði verið á miðstöðvarblásara bílsins og hvort rúður hefðu verið skrúfaðar upp eða niður og þá ein, fleiri eða allar. Mýmargt þurfi að taka með í reikninginn við slíka rannsókn.

Tæknideildin sinnir öllu landinu

Aðspurður segir hann blóðferlarannsóknir í flóknum sakamálum geta tekið nokkurn tíma. Eðlilega miðað við það sem að framan er lýst. „Við fylgjum alltaf verkefnum í krufningu líka, til að tryggja fatnað, taka sýni, naglaskaf og ljósmynda krufningarnar. Sjá nákvæmlega hvernig áverkarnir eru og hversu mikið hefur blætt og svo framvegis. Svo fara næstu vikur í þetta. Stundum þarf að fara aftur yfir vettvanginn, stundum þarf að endurgera hann,“ nefnir blóðferlasérfræðingurinn sem dæmi.

Hann segir þrívíddartækni nú hafa tekið við eldri aðferðum sem fólust í miklum fjarlægðarmælingum og teikningum af vettvangi. „Þetta hefur breyst mikið og er orðið nákvæmara en ein verulega alvarleg árás getur verið margar vikur og það er ekki eins og hún sé eina málið á borðinu þínu. Þú getur verið með banaslys líka og brunarannsókn og kynferðisbrot. Þú þarft svo kannski að taka bakvakt eina viku og ert með andlát í millitíðinni,“ lýsir Ragnar annasömum vinnudegi – eða kannski vinnusólarhring – tæknideildarfólks lögreglu.

„Við myndum alveg þiggja aukahendur, álagið hefur verið mikið síðustu árin og það er ekki að minnka,“ svarar Ragnar þegar hann er inntur eftir mönnunarstöðu á sínum vettvangi og hvort þar mætti að ósekju bæta við fólki eins og víða annars staðar hjá íslenskri lögreglu, hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsins alls.

Ragnar útskýrir hvernig blóðugur hamar skilur eftir sig ummerki á …
Ragnar útskýrir hvernig blóðugur hamar skilur eftir sig ummerki á fatnaði. Blóð getur sagt ótrúlegustu sögur og upplýst rannsakendur um hvað gerðist á brotavettvangi, allt niður í smæstu atriði. Ljósmynd/Aðsend

„Við sinnum öllu landinu,“ upplýsir Ragnar og á við tæknideildina á höfuðborgarsvæðinu, þangað haldi hann ásamt sínu samstarfsfólki í rannsóknir á upptökum bruna auk þess sem tæknideildin komi að flestum alvarlegum slysum, „þá látum við stundum keyra okkur með forgangi margra tíma leið eða fáum far með þyrlunni ef það hittir þannig á“, útskýrir hann og segir ávallt tvo tæknideildarmenn á bakvakt alla daga ársins, svokallaða A- og B-menn.

Kynnti sér ódæði Breiviks

„Það þýðir að tæknideildarmenn eru þrjá og hálfan mánuð á hverju ári á bakvakt, ef við tökum sumarfríin inn í, það er svolítið mikið álag. Okkur vantar mannskap og við erum að eldast í deildinni – ekki yngjumst við,“ segir lögreglufulltrúinn og hlær við, „það að fá bara tvær manneskjur í viðbót, þjálfa tvær yngri manneskjur upp og fækka með því bakvöktunum, yrði bara kostur fyrir embættið. Ef fólk getur byrjað ungt á það góð tuttugu ef ekki þrjátíu ár fram undan í starfi,“ segir Ragnar sem í júní næstkomandi mun eiga 23 ár að baki í tæknideildinni.

„Þegar ég labba út þarna vil ég að það verði komnir fleiri blóðferlasérfræðingar og að allir hafi þar grunnþekkingu,“ lýsir Ragnar sinni sýn en hann verður 55 ára í vor og á þar með tíu ár eftir í starfi hjá lögreglunni, 65 ár er hámarksaldurinn þar og eftirlaunaárin taka við – ætli fólk sér ekki í önnur störf lengur fram eftir ævi.

Þeir Guðmundur Þ. Tómasson tæknideildarmaður búa yfir mestri þekkingu á blóðferlarannsóknum innan íslenskrar lögreglu, „en hann er ekki með eins mörg sérnámskeið og ég, við fórum saman til Stavern í Noregi í fyrra í Lögregluháskólann sem er þar í gamalli herstöð og gegnum tíðina hef ég verið með námskeið með norræna hópnum, aðallega undir handleiðslu [norsku rannsóknarlögreglunnar] Kripos þar sem ég á marga góða vini“, segir Ragnar.

Ragnar ásamt Boga Sigvaldasyni, yfirmanni tæknideildar, að störfum fyrir kennslanefnd …
Ragnar ásamt Boga Sigvaldasyni, yfirmanni tæknideildar, að störfum fyrir kennslanefnd ríkislögreglustjóra að taka fingraför af látnum óþekktum einstaklingi. Ljósmynd/Aðsend

Þar hafi hann meðal annars verið í tvær vikur árið 2013 og kynnt sér þá ódæði Anders Behring Breivik í júlí 2011. „Ég man að maður var að velta því fyrir sér hvernig maður brygðist við sem tæknideildarmaður ef eitthvað viðlíka gerðist hérna heima. Hvar byrjaði maður?“ rifjar Ragnar upp og segir norsku lögregluna hafa beitt ákveðnu kortakerfi og skipt allri Útey, þar sem Breivik réðst á ungmennasamkomu Verkamannaflokksins, niður í svæði merkt bókstöfum og svo fært til bókar hvað gerst hefði á hverju svæði.

Atvinnutilboðið frá Kripos

„Í Noregi var ég líka viðstaddur krufningu manns sem hafði verið stunginn þrjátíu og eitthvað sinnum í Skien. Komið var með líkið til Rettsmedisinsk Institutt í Ósló og þá var eiginlega engum öðrum að tjalda en mér og einum norskum kollega til að skrá það. Svo las ég yfir allt Sigrid-málið, var ásamt breskri lögreglukonu, Gillian Leak, fenginn til að fara yfir gögn Norðmannanna um blóðferlarannsóknirnar í húsbílnum,“ segir Ragnar.

Ragnar (fjær) ásamt Svani Elíssyni sem lést árið 2019. „Hann …
Ragnar (fjær) ásamt Svani Elíssyni sem lést árið 2019. „Hann var minn „partner“ í mörg ár og minn lærifaðir í tæknideild. Ófáir vettvangar sem við rannsökuðum saman. Svanur var brautryðjandi þegar kom að lögregluljósmyndun og vörslu og skráningu ljósmynda lögreglu. Ég sakna hans sárt.“ Ljósmynd/Aðsend

Á hann þar við hið voveiflega manndrápsmál Sigrid Giskegjerde Schjetne, sextán ára gamallar stúlku í Ósló sem ætlaði að heimsækja vinkonu sína í byrjun ágúst 2012 en sneri aldrei aftur til síns heima. Var Chris Kenneth Giske, sem var 37 ára gamall þegar hann myrti Schjetne í húsbíl sínum, dæmdur til vistunar á viðeigandi stofnun eftir rúmlega mánaðarlöng réttarhöld haustið 2013.

Segir Ragnar traust Norðmannanna hafa verið honum mikinn heiður sem ekki dró úr þegar honum barst fyrirspurn frá Kripos um hvort hann hefði áhuga á starfi hjá þessu norska rannsóknarlögregluveldi sem komið hefur að stærstu sakamálum landsins.

„Þetta er stuttu eftir hrun hérna heima og við konan vorum einmitt að rifja þetta upp núna um daginn. Það var bara ekki alveg staður og stund til að stökkva á tækifærið þótt ég hafi oft hugsað til baka,“ játar Ragnar og segir að vissulega hefði það verið ákaflega dýrmæt reynsla að eiga sér starfsferil hjá norsku rannsóknarlögreglunni.

Tildrög stöðunnar hjá IABPA

„Þetta eru miklir fagmenn og Arvid Bjelkåsen, sem nú er orðinn aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Kripos, minntist á okkur fyrir rétti í Sigrid-málinu, að þarna hefði Kripos fengið utanaðkomandi sérfræðinga til að fara yfir málsgögnin,“ segir Ragnar, en áður hafði Hæstiréttur Íslands einnig viðurkennt hann sem sérfræðing þegar Hringbrautarmálið frá 2007 var tekið til meðferðar þar. Sagði þá í dómi Hæstaréttar að Ragnar hefði aflað sér menntunar á þessu sviði og teldist sérfræðingur.

Sonurinn í lögreglufylgd í laufskrúðugri höfuðborginni fyrir löngu. Hann lýkur …
Sonurinn í lögreglufylgd í laufskrúðugri höfuðborginni fyrir löngu. Hann lýkur lögreglunámi í vor. Ljósmynd/Aðsend

„Og í raun og veru er þetta þannig fag að á hverju ári eru haldnar námsstefnur sem ætlast er til að við, sem köllum okkur sérfræðinga, sækjum. Þar eru haldnar verklegar æfingar og farið yfir raunveruleg mál. Þarna hittir maður líka aðra sérfræðinga sem skiptir ekki síst máli, fær hjá þeim símanúmer og netföng. Þarna eru menn sem hafa oft aðgang að miklu stærri rannsóknarstofum en við og þekkja auk þess ýmsar leiðir. Maður er miklu öruggari í vinnunni, maður veit að maður getur alltaf leitað til kollega,“ segir Ragnar alvörugefinn.

Nú hefurðu tekið við þessari forstöðumannsstöðu. Hvernig kom það til og hvað táknar það fyrir þig að vera orðinn forstöðumaður Evrópudeildar IABPA?

Ragnar hugsar sig um og dregur seiminn í jáinu sem fylgir í kjölfarið. „Já. Þetta kemur í raun fyrst upp eftir fundaröð hjá mér árið 2019,“ rifjar hann upp. Var Ragnar þá staddur á Evrópuráðstefnu í París og fjallaði þar um íslenskt sakamál sem stórir erlendir fjölmiðlar höfðu veitt athygli og fjallað um – mál ungrar konu sem hvarf í Reykjavík árið 2017 og lyktaði með því að grænlenskur togarasjómaður hlaut 19 ára dóm.

„Sú rannsókn tók tvo mánuði upp á hvern einasta dag en við náðum rétta manninum og hann fékk þungan dóm,“ rifjar Ragnar upp og játar fúslega að málið, sem átti athygli þjóðarinnar óskipta í nokkra óhugnanlega daga í janúarmánuði 2017, hafi tekið af honum þann toll sem seint verði skákað.

Brúðkaup 1998. „Lykillinn gengur enn að skránni,“ segir Ragnar sposkur …
Brúðkaup 1998. „Lykillinn gengur enn að skránni,“ segir Ragnar sposkur þegar hann er inntur eftir því hvernig vinna sem hljómar eins og 36 tímar á sólarhring gangi upp með fjölskyldulífinu. Ljósmynd/Aðsend

Man ekkert eftir bústaðarferð

„Ég gekk mjög nærri sjálfum mér og nú tala ég bara fyrir mig en ég veit um marga kollega sem voru svefnlitlir og þreyttir eftir þessa miklu og erfiðu rannsókn. Á tímabili sagði ég við sjálfan mig „Raggi, þetta er komið gott“ og íhugaði að fara að gera eitthvað annað, annaðhvort á öðrum vettvangi innan lögreglunnar eða ég hvíldi mig bara á lögreglunni,“ segir lögreglufulltrúinn af hispurslausri hreinskilni og röddin ber þess skýran vott að hér fylgir hugur máli.

„Ég man að ég fór upp í sumarbústað í Borgarfjörð með fjölskyldunni þegar ég var búinn að skila af mér gögnum tæknideildar í málinu. Þar vorum við í nokkra daga og það er til mynd af öllum matnum sem við fórum með, spilum, veiðidóti og ég veit ekki hvað.

En þegar ég fór að hugsa um þetta eftir á man ég ekkert eftir þessari ferð. Ég vissi ekki hvort ég hefði sofið allan tímann eða hvað en það gerði ég ekki, við fórum og skoðuðum Deildartunguhver og fórum inn í Reykholt en ég man ekkert eftir því,“ segir Ragnar sem var svo aðframkominn eftir tveggja mánaða manndrápsrannsókn að hans eigið innra kerfi slökkti hreinlega á sér. Hingað og ekki lengra.

Framangreinda rannsókn ræddi Ragnar á málþinginu í París og einnig sagði hann frá henni við Lögregluháskólann í Hollandi og í ráðstefnuferð til Bandaríkjanna. Þetta hafi gert það að verkum að augu blóðferlarannsakenda heimsins beindust að mjög öflugu samstarfi Norðurlandanna í sakamálarannsóknum.

Ragnar (annar f.v.) ásamt þremur frumkvöðlum blóðferlarannsókna sem allir eru …
Ragnar (annar f.v.) ásamt þremur frumkvöðlum blóðferlarannsókna sem allir eru virtir fræðimenn: Ross M. Gardner, Tom Bevel og Tom „Grif“ Griffin, en reynsla þeirra samanlögð nemur 78 árum í sakamálarannsóknum. Hafa þeir gefið út bækur um blóðferlarannsóknir og endurgerðir brotavettvanga. Ljósmynd/Aðsend

Eiga mál í annáluðu fræðiriti

„Gæði og geta svona lítillar deildar eins og tæknideildin er á Íslandi þótti líka mjög merkilegt. Í kjölfarið fóru fleiri og fleiri að koma að máli við mig og skoða ferilskrána mína. Í millitíðinni ratar svo slökkvitækjamálið frá 2007 í bók sem heitir Techniques of Crime Scene Investigation í bókaflokki sem búið er að gefa út síðan 1963 og þetta er níunda útgáfan sem kemur út 2022,“ segir Ragnar frá.

Feðgar, sem ritstýra bókaflokknum, hafi verið á ráðstefnu í Tacoma í Washington þar sem fjallað var um slökkvitækjamálið. Þeir komu svo til Íslands í heimsókn þar sem Ragnar ræddi við þá og fékk þá að vita að þeir væru að leggja á ráðin um kafla um endurgerð brotavettvangs út frá blóðferlum.

Slökkvitækjamálið hafi þar fallið sem flís við rass að umfjöllunarefninu og þannig hafi það atvikast að Ragnar og Björgvin Sigurðsson, DNA-sérfræðingur á líftæknisviði tæknideildar, hafi orðið fyrstir íslenskra lögreglumanna til að eiga mál í bókinni en hún er notuð sem kennsluefni við sakamálarannsóknir víða um heim.

„Það er mikill heiður fyrir eitt minnsta lögreglulið í Evrópu,“ segir Ragnar og verður líklega ekki mótmælt. Fyrirlestrahald hans um rammíslensk sakamál vakti alltént athygli beggja vegna Atlantsála og þá kemur hið endanlega svar við spurningunni hér að ofan um hvernig forstöðumannsstaðan hafi komið til.

Ekki spurt um málafjölda

Í Baltimore í fyrra kom til hans kona sem var forstöðumaður Evrópudeildarinnar og tjáði honum að hennar biði nú nýr vettvangur, Ragnar væri algjörlega rétti maðurinn til að taka við boltanum og halda hennar starfi áfram.

„Einhvern tímann, fyrir tíu árum kannski, hefði ég sagt henni að láta einhvern reynslumeiri hafa forstöðumannsstöðuna. Hún sagði mér hins vegar að hér væri ekki spurning um fjölda mála sem maður hefði rannsakað heldur að hafa þennan brennandi áhuga sem ég hefði enn eftir öll þessi ár.

Ragnar ásamt Björgvin Sigurðssyni, DNA-sérfræðingi tæknideildar. Þeir Björgvin eru höfundar …
Ragnar ásamt Björgvin Sigurðssyni, DNA-sérfræðingi tæknideildar. Þeir Björgvin eru höfundar greinar sem birt var í bókinni Techniques of Crime Scene Investigation árið 2022 um manndrápið á Hringbraut 2007. Ljósmynd/Aðsend

Ég væri alltaf mættur á allar námsstefnur og hefði ákveðna sýn varðandi menntunarmálin auk þess sem hún taldi samtökin geta lært margt af samstarfinu milli Norðurlandanna, þau væru sífellt að glíma við einhverja smákónga í Evrópu, til dæmis Þýskaland og Frakkland sem talast varla við,“ útskýrir Ragnar.

Og þannig atvikaðist það að Ragnar Jónsson lögreglufulltrúi tók fyrstur Norðurlandabúa við forstöðumennsku Evrópudeildar Alþjóðasamtaka blóðferlasérfræðinga.

„Auðvitað er þetta gríðarlega mikill heiður. Ekki að það sé lítið að gera hjá mér í vinnunni, en þetta eru fundir einu sinni í mánuði og svo einhver verkefni sem þarf að vinna, til dæmis varðandi menntunarmál, hver framtíðarsýn okkar samtaka er og hvernig við viljum haga okkar kennslu. Á Norðurlöndunum viljum við gera þetta svolítið sjálf, hafa kennslu til dæmis þannig að við sem erum með margra ára reynslu tækjum að okkur nema og leiddum þá í gegnum grunninn og framhaldið, efnafræðina og svo framvegis. Með þessu er búið að koma Íslandi á kortið,“ segir Ragnar.

Hollendingar engir aukvisar

Blóðferlasérfræðingar sem geti kallað sig sérfræðivitni fyrir dómstólum séu aðeins sex hundruð í heiminum. Samtökin telji þó auðvitað mun fleiri, milli tvö og þrjú þúsund manns. „Og sérfræðingarnir eru til dæmis ekkert mjög margir í Bandaríkjunum,“ útskýrir Ragnar, „það sem hefur verið að þvælast fyrir okkur þar er að þar eru svo margir sjálfskipaðir sérfræðingar sem eru búnir að taka eitt eða tvö námskeið og kalla sig sérfræðinga. Lenda svo í málaferlum og vitleysu,“ heldur hann áfram.

Heimsókn til FBI í Quantico í nóvember 2001 á leið …
Heimsókn til FBI í Quantico í nóvember 2001 á leið í nám til Jacksonville. „Þar fékk ég skoða Behaviour Science-deildina, betur þekkta sem mindhunters. Ljósmynd/Aðsend

Hann telur Ástrala, Kanadamenn, Hollendinga, Svía og Breta standa fremst þjóða heimsins í blóðferlarannsóknum dagsins í dag. Hollendingar fái til dæmis óheyrilegar fjárhæðir á ári til rannsókna og þróunar í löggæslumálum, fyrir nokkrum árum hafi verið talað um að sú upphæð væri þrjátíu milljónir evra, jafnvirði tæplega 4,5 milljarða íslenskra króna.

„Ég hef eignast mjög marga vini á mínum vettvangi í Hollandi, þar mættu rúmlega þrjú hundruð tæknideildarmenn hvorn dag að hlusta á mig þegar mér var boðið að koma þangað og flytja fyrirlestra í tvo daga. Gæðastaðallinn hjá Hollendingum er mjög hár og þetta voru bara tæknideildarmenn, svo eru þeir með mörg þúsund lögreglumenn,“ segir Ragnar frá.

Sem dæmi um rannsóknir sem Hollendingar leggja stund á nefnir Ragnar blóðbletti í fatnaði, enn eitt sviðið innan blóðferlagreiningarinnar. „Föt geta verið alla vega, úr efnum sem draga í sig vökva eða hrinda frá sér vökva, föt geta sagt heilmikla sögu og þar eru Hollendingar og Ástralar mjög framarlega, þar er þetta kennt á háskólastigi og fólk sem er að taka meistaragráðu í sakamálarannsóknum getur verið fjórar til sex vikur á námskeiðum þar sem allan daginn er bara verið að skoða blóð í fatnaði. Þetta geta þessar stóru þjóðir leyft sér,“ segir Ragnar hugsi.

Lokaverkefni á námskeiði árið 2023 í San Diego í Kaliforníu. …
Lokaverkefni á námskeiði árið 2023 í San Diego í Kaliforníu. Þarna þurfti að finna skurðpunkt eða upphafsstað blóðsúthellingar. Ljósmynd/Aðsend

Hófst allt með Mýrinni

Það er svo sem ekki fátt sem stiklað hefur verið á hér að framan á rúmlega þriggja áratuga ferli Ragnars Jónssonar í lögreglunni. Þegar menn eru komnir svo djúpt inn í sína sérgrein freistar það líkast til annarra en löggæsluyfirvalda einna að bergja af þekkingarbrunninum. Svo er það að sjálfsögðu einnig í tilfelli Ragnars sem hefur komið umtalsvert að gerð íslenskra spennuþátta vegna sérstöðu sinnar – og ástríðu sem líklega mætti einnig kalla svo að meinalausu.

Hann er beðinn að segja frá þessum vettvangi sem er svo ólíkur því sem hann fæst við í sínu starfi – afbrotarannsóknir, þar sem fjöldi fólks á oft um sárt að binda, en á hinum enda kvarðans afþreying sem við öll þörfnumst inn á milli.

Hvernig stendur á þessu?

„Ja, það er nú svolítið skondið,“ svarar Ragnar að bragði og segir þennan þátt lífs síns eiga sér nokkuð langa sögu, hann hafi hafist með Mýrinni, kvikmynd Baltasars Kormáks eftir skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, árið 2006. „Baltasar vildi þá heyra í okkur Björgvin um það hvernig morðvettvangur liti út, hvernig við bærum okkur að og svo framvegis. Svo spurðist það út að ég væri viðræðugóður maður svo ég fékk í kjölfarið fleiri verkefni,“ rifjar Ragnar upp.

Þau verkefni hafa verið allnokkur þar sem Ragnar á sér veglega ferilskrá í kvikmyndagagnagrunninum IMDb og má þar sjá verk sem margir ættu að kannast við á borð við kvikmyndina Ég man þig og þættina Svörtu sanda, Hamarinn og Hraunið. „Árið 2019 er ég svo fenginn til að lesa yfir handrit að lotu af The Valhalla Murders [íslenskur titill Brot] sem Davíð Óskar leikstýrði og fleiri,“ segir Ragnar.

„Dóttir mín árið 2015 sitjandi á löggumótorhjóli. Dagurinn dæturnar með …
„Dóttir mín árið 2015 sitjandi á löggumótorhjóli. Dagurinn dæturnar með í vinnuna. Sem betur fer valdi hún að prófa eitthvað annað en lögguna, orðin tvítug í dag.“ Ljósmynd/Aðsend

„Þá hlakkaði í mér“

Þar hafi hlutverk hans enn fremur falist í því að þjálfa leikarana í vissum vinnubrögðum og hafi leikkonan Aldís Amah Hamilton þar orðið á vegi hans. „Ég fór að segja henni frá því að síðastliðin ár hefði verið að mótast hjá mér hugmynd af því að ég hefði farið í svo mörg slys á Suðurlandi. Í einni af ferðunum þangað fór ég að hugsa með mér hvað ef þetta væru ekki slys, hvað ef þarna væri einhver að verki sem hataði útlendinga, ferðamenn, dræpi þá og léti það líta út eins og slys?“ rifjar Ragnar upp af hugmyndinni sem þá kviknaði hjá honum.

Aldís hafi sýnt þessu áhuga og sagst geta hugsað sér að skrifa handrit þótt hún hefði litla reynslu af því og eftir að þau höfðu kastað boltanum á milli sín nokkur skipti hittu þau leikstjórann góðkunna Baldvin Z sem Ragnar hafði áður unnið með í tveimur verkefnum.

„Við sýndum honum þetta og honum leist svona líka vel á, hafði einmitt verið að missa frá sér verkefni. Svo hann fær Andra Óttarsson, sem skrifaði Rétt, með sér og hann vildi gera þetta meira „dark“. Þá hlakkaði í mér því ég er dálítið þannig hugsandi,“ segir Ragnar frá. Tökur hafi svo hafist á Svörtu söndum í Vík í Mýrdal í miðjum heimsfaraldri.

„Aldís hringdi þá í mig þaðan og sagðist varla trúa því sem væri að gerast. Hún væri stödd á tökustað „og við erum búin að skaffa 150 manns vinnu og það er covid“. Þetta er nú bara með því fallegra sem hefur verið sagt við mig, að einhver hugmynd sem fæddist einhverjum árum áður væri orðin að veruleika og og það væri byrjað að taka upp handrit sem við skrifuðum saman, Aldís, Baddi og ég. Þetta átti nú aldrei að vera annað en bara góð afþreying en svo gengu þættirnir það vel að við erum búin að taka upp seríu tvö sem kemur til sýninga í haust,“ segir Ragnar en Svartir sandar hafa farið víða um heim og eru á leið á indverska sjónvarpsþáttahátíð nú innan skamms.

Ragnar gerir tilraunir með blóð við Bloodstain Institute í Corning …
Ragnar gerir tilraunir með blóð við Bloodstain Institute í Corning í New York-ríki. Ljósmynd/Aðsend

Konan ekki búin að henda honum út

„Lykillinn gengur alla vega að skránni enn þá,“ segir Ragnar í glettnum tón þegar blaðamaður spyr hann hvernig það megi vera að svo umfangsmikil athafnasemi – starfið og allt sem því fylgir auk sjónvarpsþáttavinnslu – geti gengið upp samhliða fjölskyldulífi. „Þetta gengur einhvern veginn. Það er viss hvíld í því eftir erfiðan vinnudag að setjast niður og halda áfram að skrifa hugmynd um einhvern mann sem er að gera eitthvað. Áður en þú veist af er liðið langt fram á nótt,“ segir Ragnar af starfsdeginum.

„Ég er manískur safnari og grúskari og spila auk þess á hljómborð,“ heldur hann áfram en kvikmyndasafn lögreglufulltrúans telur milli þrjú og fjögur þúsund titla auk þess sem heimili hans skartar veglegu bókasafni þar sem sagnfræði og lögreglufræði eru ofarlega á efnisskránni.

Senn líður að lokum viðtals sem farið hefur vægast sagt um víðan völl. Ekki er þó hægt að sleppa Ragnari úr maraþonsímtali án þess að kafa í reynslubrunn hans innan lögreglunnar og allar þær breytingar sem hann hefur horft upp á frá fyrsta starfsdegi sem sumarlögreglumaður árið 1990 og langt inn í nýja öld.

Ragnar framan við æskuheimili sitt, Frúarhúsið í Stykkishólmi. „Þar bjó …
Ragnar framan við æskuheimili sitt, Frúarhúsið í Stykkishólmi. „Þar bjó ég fyrstu æviárin þar sem pabbi var eina löggan í Stykkishólmi 1969 til 1973. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig finnst þér ofbeldisbrot á Íslandi hafa þróast á þínum tíma í lögreglunni?

Ragnar er skjótur til svars. „Mér finnst þau hafa þróast úr drykkju og ómenningu yfir í...ja, ég veit varla hvað ég á að segja. Þróunin er mjög slæm og við höfum sofið á verðinum, yfirvöld, skólayfirvöld og foreldrar. Það er auðvitað nóg að gera hjá öllum. En neyslan hefur aukist mjög mikið og það er orðið grafalvarlegt þegar ungt fólk fer ekki heiman frá sér öðruvísi en að vera með eggvopn, þá er eitthvað að í samfélaginu,“ segir Ragnar og leggur ríka áherslu á orð sín.

Ef allt annað þrýtur

Hann rifjar upp fyrstu árin í lögreglunni þegar lögreglumenn gengu með trékylfu og handjárn. „Ekkert hnífavesti, ekki myndavél, ekki mace og ekki neitt. Hvað hefur gerst á þessum 33 árum? Nú eru komnar langar óeirðakylfur, skildir, hnífavesti, búkmyndavélar, skotheld vesti. Við sem erum hæf til að fara í skotvopnaþjálfun erum öll notuð, hvort sem við erum í blóðferlarannsóknum eða hvað, það á að vera hægt að nota þig ef allt annað þrýtur,“ segir Ragnar.

Hann segir þarna ekki komna neina breytingu sem lögreglan hafi beðið um. Samfélög breytist, þannig sé það. „Við verðum að fylgja því eftir, við verðum að hugsa um okkar öryggi. Það er engin hjálp í okkur ef við getum ekki varið okkur eða varið borgarana. Þannig að við urðum einhvern veginn að vígbúast.

Black Sands-teymið, handritshöfundar að Svörtu Söndum. F.v.: Ragnar, Baldvin Z …
Black Sands-teymið, handritshöfundar að Svörtu Söndum. F.v.: Ragnar, Baldvin Z og Aldís Amah Hamilton. „Þarna erum við stödd að kynna verkið okkar á Berlinale-hátíðinni í febrúar 2022.“ Ljósmynd/Aðsend

Það er í eðli okkar og það er okkar þjálfun að hlaupa á móti hættunni þegar allir aðrir eru að hlaupa í burtu. Þannig erum við þjálfuð til að hugsa og vinna, við erum eins og maskínur,“ segir Ragnar af lögreglustarfinu. „En ég myndi ekki vilja vera með trékylfuna í dag á móti einhverjum sem er kannski með skotvopn eða stóra sveðju,“ segir hann.

Talandi um skotvopn. Nú hefur umræðan verið mikil um það síðustu ár, hér og í Noregi, hvort almennir lögreglumenn eigi að ganga með þau. Þú hlýtur að hafa miklar skoðanir á því.

„Eins og fyrirkomulagið er í dag er ég sáttur. Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki hrifinn af skotvopnum og ef sá dagur rennur upp á minni tíð í lögreglunni að lögreglumenn bera skotvopn að staðaldri þá ætla ég að finna mér eitthvað annað að gera,“ svarar Ragnar hreinskilnislega. „Þá erum við komin á mjög vondan stað. En það að skotvopn séu í ákveðnum bílum og það fólk sem er skráð á þá bíla sé með meiri þjálfun en við hin, ég er bara mjög sáttur við það fyrirkomulag,“ heldur hann áfram.

Sjálfhverfir stjórnmálamenn

Ragnar segir það galið að senda óvopnaðan lögreglubíl á vettvang þar sem búið sé að hleypa af einhverjum skotum. „Við gerum það ekki. Og mér finnst ákveðnir stjórnmálamenn, sem eru gjarnir á að skjóta allt niður sem lögreglan biður um – og eru oft í stjórnarandstöðu – vera dálítið sjálfhverfir. Þeir haldi að þetta snúist allt bara um sig, að við ætlum að fara að njósna um þá eða fá betri heimildir til að spá í einhverjum Pírataþingmönnum.

Þið eruð ekki að hlusta, þið eruð ekki að sjá heildarmyndina. Ég hvet ykkur til að fara í heimsókn til Danmerkur og mæta á Kastrup-flugvöll og sjá þungvopnaða lögreglumenn þar. Hættan á hryðjuverkum í Evrópu frá því hryðjuverkin voru framin í París í nóvember 2015 hefur aukist,“ segir Ragnar.

„Stoltur 24 ára lögreglumaður, ungur og saklaus. Í dag er …
„Stoltur 24 ára lögreglumaður, ungur og saklaus. Í dag er ég bara saklaus.“ Ljósmynd/Aðsend

Lögreglan í vestrænum löndum neyðist til að vera á næsthæsta viðbúnaðarstigi. Ekki vegna þess að hún sé að glíma við hópa í skipulagðri glæpastarfsemi. „Heldur þessa menn sem eru miklu hættulegri, einfarana sem kallaðir eru „lone wolves“. Hvað á að gera ef maður rífur upp sveðju í Kringlunni? Eigum við að senda löggurnar með búkmyndavélarnar og útdraganlegu kylfurnar og mace-brúsana?“ spyr Ragnar. „Ég er ekki að segja að við munum skjóta viðkomandi en það að geta ógnað og sagt „leggstu niður, þetta er vopnuð lögregla!“ hefur mikið að segja.“

Hvað með skipulagða glæpastarfsemi og alla þá umræðu og atburði að ógleymdri þeirri lífseigu möntru að svona lagað gerist ekki á Íslandi?

„Við höfum upplýsingar um aðila sem hafa tengsl við brotahópa erlendis. Í Svíþjóð er þetta sérstaklega slæmt, þar er verið að finna unglinga sem hafa dottið út úr skóla og eru undir sakhæfisaldri til að fá þá til að fremja ódæði vegna þess að það er vitað að þeir fá ekki fulla refsingu, þeir fara bara á upptökuheimili í stuttan tíma. Það er þetta sem er svo ljótt,“ segir Ragnar, „að nota krakka sem koma frá brotnum heimilum og erfiðum aðstæðum til að fremja illvirki.“

Öskrað strax „rasisti“

Hann segir mörk erlendra menningarheima sérstaklega erfið að fást við, meðal annars vegna þess að þar þurfi aðkomu túlka auk þess sem fleiri atriði spili inn í. „Sumir segja bara „ég tala ekki við lögregluna, það er ekki hluti af minni menningu. Ef mitt fólk kemst að því að ég hef talað við ykkur eru ég og mín fjölskylda bara búin að vera.“ Þetta er alveg nýr veruleiki fyrir okkur hérna heima og það er mjög erfitt að tala svona. Um leið og maður nefnir að einhver sé af erlendum uppruna er bara öskrað strax rasisti, þú nærð ekki einu sinni að klára setninguna,“ segir Ragnar.

Sé ekki hægt að ræða hlutina og hugsa í lausnum segir hann samfélagið komið á mjög vondan stað. Lögreglu væri best að kalla eftir málstofu með stjórnmálamönnum sem séu tregir til að veita lögreglu ýmsar heimildir. „Þar ætti spurningin að vera hvernig lögreglu viljið þið hafa, hvað á lögreglan ykkar að geta gert, hvernig á hún að vera þjálfuð, hvað eigum við að vera mörg, eigum við að vera sýnileg eða ekki sýnileg? Svarið við þessum spurningum vantar frá þjóðinni og ráðamönnum. Hvernig löggæslu viljið þið?“ spyr Ragnar.

Lokaspurning. Framtíð íslenskrar löggæslu, hver er hún?

„Jahá,“ segir Ragnar enda stórt spurt. „Ég vil trúa því að við séum á réttri leið. Það er ásókn í námið sem er komið á háskólastig, ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt,“ segir hann og á við háskólastigið. Augljóslega séu miklir möguleikar í boði fyrir fólk sem hafi áhuga á að starfa í lögreglu hérlendis eða erlendis.

„Ég vil trúa því að framtíðin sé björt. Við erum á pari við Norðurlöndin þótt allt hér sé miklu smærra í sniðum. Þekkingarlega séð erum við með sérfræðinga á svo mörgum sviðum, þeir eru bara miklu færri og tæknibúnaðurinn minni. Unga fólkið sem er að vinna á götunni og í rannsóknardeildunum í dag er mjög gott. Það er að gera sitt besta í starfi þar sem mættu vera fleiri, miklu fleiri. Þau eru ekki öfundsverð en ég dáist að þeim og ég held að við séum bara að fá gott fólk inn,“ segir Ragnar Jónsson að lokum, lögreglufulltrúi, fremsti sérfræðingur íslenskrar lögreglu í blóðferlagreiningu og nýbakaður forstöðumaður Evrópudeildar Alþjóðsamtaka blóðferlasérfræðinga. Svo mörg voru þau orð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert