Bankaráð Landsbankans ákvað í dag að fresta aðalfundi bankans sem halda átti á morgun til föstudagsins 19. apríl. Þetta var ákveðið á fundi bankaráðs í dag. Varð bankaráðið þar með við beiðni Bankasýslunnar sem hafði krafist þess að aðalfundinum yrði frestað.
Greint er frá ákvörðuninni í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Málefni Landsbankans hafa orðið að pólitísku hitamáli eftir að greint var frá fyrirhuguðum kaupum Landsbankans á tryggingafélaginu TM.
Um helgina var greint frá því að Kvika hefði samþykkt tilboð Landsbankans í tryggingafélagið. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra gaf strax út að viðskiptin yrðu ekki að veruleika með hennar samþykki nema söluferli Landsbankans myndi hefjast samhliða. Óskaði hún jafnframt skýringa Bankasýslu ríkisins á þessu.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, sagði í gær að kaup bankans á tryggingafélaginu vera til þess að viðhalda verðmæti bankans og til haga fyrir eigendur bankans, sem að lang stærstum hluta er ríkið. Sagði hún að bankinn myndi halda áfram með kaupin, þrátt fyrir gagnrýni Þórdísar.
Bankasýslan fundaði í gær með bankaráði Landsbankans vegna málinu og sendi í kjölfarið frá sér bréf stofnunarinnar bæði til ráðherra og opinbert bréf. Kom þar fram að Bankasýslunni hefði verið alls ókunnugt um viðskiptin og að stofnunin taki undir áhyggjur Þórdísar.
Segir í bréfinu að Bankasýslan hafi hvorki fengið upplýsingar um fyriráætlanir Landsbankans að leggja fram skuldbindandi tilboð, né um að tilboðið hafi verið lagt fram. „Heldur var einungis upplýst um þegar skuldbindandi tilboð var tekið um kl. 17 þann 17. mars sl.“
Í bréfinu til bankaráðsins lýsti Bankasýslan vonbrigðum með ákvarðanatöku og upplýsingagjöf bankaráðs Landsbankans, varðandi kaupin. Var tekið fram að Landsbankanum beri án tafar að upplýsa hluthafa um öll mikilvæg mál sem upp kunni að koma, eða eru ákveðin af bankanum, og geti haft afgerandi áhrif á rekstur hans og efnahag, samkvæmt samningi milli Bankasýslunnar og stjórnar bankans frá árinu 2010.
„Það er mat BR að tilboð Landsbankans í 100% eignarhlut TM sé þess eðlis að Landsbankanum hafi borið að upplýsa BR um það með skýrum og formlegum hætti og með eðlilegum fyrirvara,“ segir í bréfinu.
„Þar sem það var ekki gert óskar BR eftir því að bankaráð Landsbankans skili stofnuninni greinargerð um ofangreind viðskipti, þar sem m.a. er lýst aðdraganda tilboðsins, framvindu þess og ákvarðanatöku, forsendum og rökum viðskiptanna, skyldum Landsbankans gagnvart BR skv. samningi aðila frá desember 2010 og ákvæðum eigendastefnu ríkisins.“
Loks var vikið að því að Bankasýslan telji að þessar upplýsingar, sem beðið er um, geti haft mikil áhrif á dagskrá, umræður og niðurstöður fyrirhugaðs aðalfundar bankans á miðvikudag. Var þess því krafist að bankaráðið fresti aðalfundinum um fjórar vikur sem bankaráðið var við.
Fréttin hefur verið uppfærð.