Halda ekki skrá um þá staði sem hefur verið lokað

Mikil umræða hefur spunnist um starfsemi heilbrigðiseftirlitsins í kjölfar fordæmalausrar …
Mikil umræða hefur spunnist um starfsemi heilbrigðiseftirlitsins í kjölfar fordæmalausrar aðgerðar matvælaeftirlitsins á matvælalager í Sóltúni 20. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ekki nákvæmar upplýsingar um lokun eða takmörkun á starfsemi veitingastaða.

Fyrirtæki bera sjálf ábyrgð á sinni starfsemi og að hún sé í samræmi við þau lög og reglur sem gilda um starfsemina á hverjum tíma. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari Tómasar G. Gíslasonar, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, við fyrirspurnum mbl.is í kjölfar viðtals við Tóm­as og Óskar Ísfeld Sig­urðsson, deild­ar­stjóra mat­væla­eft­ir­lits hjá Heil­brigðis­eft­ir­liti Reykja­vík­ur, um eft­ir­lit og heim­ild­ir heil­brigðis­eft­ir­lits­ins.

Í svari sínu útskýrir Tómas að heilbrigðiseftirlitið fylgi því eftir að matvælaöryggi sé ekki ógnað og öryggi neytenda sé tryggt. Þannig séu fyrirtæki sem ekki uppfylla þau skilyrði ekki starfandi.

Oftast um tímabundnar lokanir að ræða

Spurður hvort ekki sé haldinn skrá yfir þau fyrirtæki sem ekki eru starfandi, einmitt til að geta fylgt því eftir hvort staðirnir séu starfandi eða ekki, svarar Tómas að fyrirkomulagið sé venjulega þannig að rekstraraðilar ákveði sjálfir að loka starfsemi tímabundið ef úttekt heilbrigðiseftirlits leiðir slíkt í ljós.

Umræddir rekstraraðilar geta þá ekki hafið rekstur á ný fyrr en eftirlitið hefur staðfest að úrbætur hafi átt sér stað, skrifar Tómas og bætir við að oftast sé um tímabundnar lokanir að ræða en ekki varanlegar. 

„Ekki er haldin tölfræði um slíkar ákvarðanir og því liggja þær upplýsingar ekki fyrir nema með ítarlegri skoðun á eftirlitsskýrslum hvers fyrirtækis.“

Tíðni eftirlits mismunandi 

Þá óskaði mbl.is eftir upplýsingum um hversu oft farið er í eftirlit á veitinga- eða matsölustaði og hvað það er sem ræður.

Í svari Tómasar segir að tíðni eftirlits sé mjög misjöfn. „Allt frá því að vera ítarlegt eftirlit á hverju ári í að vera á nokkurra ára fresti.“ Tíðnin fari eftir eðli starfseminnar og áhættumati sem fyrir liggur.  

Spurður hvað líður langur tími frá því farið er í eftirlit þar sem í ljós kemur að veitinga- eða matsölustaður uppfylli ekki kröfur heilbrigðiseftirlitsins og þangað til eftirlit á sama stað er endurtekið, svarar Tómas að það fari eftir alvarleika og umfangi frávika. 

Inntur eftir ítarlegra svari og þá sérstaklega með tilliti til þess hvað það er sem ræður því hvort farið er í eftirlit á hverju ári eða á nokkurra ára fresti, svarar Tómas því til að tíðnin sé misjöfn eftir umfangi og eðli reksturs. Þá segir hann að tíðnin byggist á áhættumati fyrir matvælastarfsemi sem heilbrigðiseftirlitið starfar samkvæmt.

„Léleg niðurstaða fyrra eftirlits getur þar haft áhrif.“

Grípa til aðgerða ef matvælaöryggi er ógnað 

Loks spurði mbl.is hvað þyrfti að gerast til að heilbrigðiseftirlitið myndi loka stað. Í svari Tómasar segir að heilbrigðiseftirlitið loki staðnum ef matvælaöryggi sé ógnað og rekstraraðilinn grípi ekki til nauðsynlegra aðgerða, svo sem með því að takmarka starfsemina eða loka staðnum. 

„Ef matvælaöryggi er ógnað og rekstraraðili grípur ekki til nauðsynlegra aðgerða, þá grípur Heilbrigðiseftirlitið til viðeigandi ráðstafana, svo sem förgun matvæla, takmörkun á starfsemi að hluta til eða öllu leyti.“

Núverandi kerfi ófullnægjandi

Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er að finna niðurstöður eftirlitsins úr reglubundnu eftirliti í starfsleyfisskyldum fyrirtækjum í Reykjavík.

Framsetning niðurstaðanna er með þeim hætti að þegar fyrirtæki er flett upp birtist einkunn úr síðasta eftirliti. Umrædd einkunn er á skalanum núll til fimm og er til marks um niðurstöðu eftirlitsins. Þá er hægt að senda beiðni um eftirlitsskýrslu frá staðnum til að fá nánari upplýsingar úr eftirlitinu.

Tómas segir rétt að taka fram að ekki sé um eiginlegt einkunnakerfi að ræða, heldur niðurstöðu eftirlits sem sett er fram með sjónrænum hætti, broskarli, lit og númerakerfi, sem sýnir niðurstöðu síðasta eftirliti í fyrirtækið. 

Þessu kerfi hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hampað en í greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs Reykjavíkurborgar segir að staða á rafrænu umhverfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé ófullnægjandi. 

Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í gær, en þar kemur jafnframt fram að borgarráð hafi heimilað þjón­ustu- og ný­sköp­un­ar­sviði borg­ar­inn­ar að hefja útboð á skjala- og eft­ir­lit­s­kerfi fyr­ir Heil­brigðis­eft­ir­lit Reykja­vík­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka