Mennirnir ófundnir en ýmsar vísbendingar til skoðunar

Þjófanna sem stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í …
Þjófanna sem stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg er enn leitað. mbl.is/Árni Sæberg

Þjófanna sem stálu tugum miljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg undir lok síðasta mánaðar er enn leitað.

Heimir Ríkarðsson lögreglufulltrúi, sem fer yfir rannsókninni, segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi. Hann segir við mbl.is að leit standi enn yfir að mönnunum tveimur sem stálu peningunum sem og að Yaris-bifreiðinni sem þeir voru á.

Bifreiðin var með tvær mismunandi númeraplötur en báðum skráningarnúmerunum var stolið af öðrum ökutækjum. Heimir segir að lögreglan hafi litlar upplýsingar hvaða bíll þetta geti verið.

Hafa skoðað upptökur úr öryggismyndavélum

„Það er enn verið að vinna í þessu máli og skoða ýmsa möguleika,“ segir Heimir en þjófarnir höfðu á brott með sér 20-30 milljónir króna sem voru í tveimur töskum í verðmætaflutningabílnum.

Heimir segir að lögreglunni hafi borist ýmsar vísbendingar sem verið er að skoða og þá hafi verið farið yfir upptökur úr öryggismyndavélum, meðal annars í Leifsstöð. Ekki er vitað til þess að litaðir peningar hafi verið í umferð en í verðmætatöskunum voru litasprengjur sem eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til að nálgast þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert