„Mikil hitasveifla á stuttum tíma“

Þetta spákort á facebooksíðu Bliku fyrir laugardaginn er af brunni …
Þetta spákort á facebooksíðu Bliku fyrir laugardaginn er af brunni Veðurstofunnar. Kort/Blika

Búast má við mikilli breytingu á veðrinu á öllu landinu um helgina, að minnsta kosti til skamms tíma, þegar milt loft fer yfir landið.

„Það mun flæða yfir okkur miklu mildara loft. Þetta verður mjög snögg breyting. Við gætum verið að sjá hitann fara úr mínus fimm í fyrramálið og upp í plús tíu á laugardagsmorguninn fyrir norðan, með þessari suðaustanátt og síðar sunnanátt,” segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á veðurvaktinni hjá Bliku, í samtali við mbl.is.

Skil með mildu loftslagi

Hann bendir á að kalt hafi verið á landinu síðasta mánuðinn og að menn séu farnir að þrá vorið og einhverja breytingu.

Skil munu koma úr suðvestri með mildu loftslagi sem nær loksins til landsins eftir að slíkar bylgjur hafa oftast fjarað út hér og stefnt á Bretlandseyjar.

Einar Sveinbjörnsson.
Einar Sveinbjörnsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Rigning og leysing 

Einar reiknar með að með hlýindunum hláni á landinu og leysi upp í 700 til 1.000 metra hæð. Rigning mun aðallega fylgja með á Suður- og Vesturlandi, sérstaklega vestanlands. Hann býst við frekar skarpri leysingu á Snæfellsnesi þar sem er talsverður snjór. Einnig verður leysing í byggð fyrir norðan og austan.

„Þetta er mikil hitasveifla á stuttum tíma eftir kuldann að undanförnu,” segir Einar og nefnir að ár sem eru á ís muni ná að ryðja sig.

Hann segir líkur á að rof komi í hlýindin á sunnudag þegar kaldur háloftakjarni kemur vestan að frá Grænlandi og fer yfir norðvestanvert landið snemma þann dag. Þá gæti snjóað til fjalla og jafnvel í byggð en útlit er fyrir að það taki aftur að hlýna á mánudag. Langtímahorfur í veðrinu eru annars óljósar.

„Vorleg breyting“

„Mér finnst þetta vera mjög vorleg breyting,” segir Einar, spurður hvort vorið sé loksins komið. „Það er búinn að vera vetur fram að þessu en að fá svona góða leysingu er ágætis vorteikn. En við vitum að vorið á Íslandi er aldrei einhver bein lína. Þegar það gerist eru hlutirnir eitthvað skrítnir,” segir hann.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert