„Á réttri leið en nokkuð í land ennþá“

Sigurður ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Sigurður ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir nýja verðbólgumælingu vera afar jákvæðar fréttir en verðbólgan hefur hjaðnað um 0,8% og mælist tólf mánaða verðbólga nú 6% og hefur ekki verið lægri síðan í janúar 2022.

„Þetta er mjög gleðilegt og er í takt við þær væntingar sem við höfum haft og höfum verið að vinna að. Verðbólgan er í takti við þær spár sem greiningaraðilar höfðu gert og þegar maður rýnir í þessar tölur þá eru áfram jákvæð teikn á lofti,“ segir Sigurður Ingi við mbl.is.

Tekur undir þær spár að verðbólgan hjaðni

Sigurður Ingi nefnir dæmi um vöruflokka sem hafa hækkað mikið á milli ára, meira en 4%, hafi fækkað töluvert og hann segist taka undir þær spár sem segja að verðbólgan muni hjaðna áfram þegar líður á árið.

„Við erum á réttri leið en það er nokkuð í land ennþá. Þetta er langhlaup en þetta eru jákvæðar fréttir og hlýtur að styðja aðra aðila við það að við séum að ná árangri og muni hjálpa til við að láta verðbólguna áfram hjaðna,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður segir að það styttist í að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynni ákvörðun sína um stýrivexti og segir hann að þessi verðbólgumæling sé jákvæð teikn inn í það ferli.

Spurður hvort hann bindi vonir við að stýrivextir verði lækkaðir segir Sigurður:

„Seðlabankinn tekur sínar sjálfstæðu ákvarðanir og ég sem fjármálaráðherra ætla ekki að tjá mig um það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert