„Höfum ekki náð að skríða upp úr þeirri gryfju“

Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant, Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, …
Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant, Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir bólusetninga sóttvarnasviði embættis landlæknis, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þátttaka barna á Íslandi í almennum bólusetningum hefur dregist saman um allt að 6% á árunum 2018 til 2022.

Er m.a. viðvarandi dræm þátttaka fjögurra ára barna í viðhaldsbólusetningu gegn kíghósta, barnaveiki og stífkrampa. Hefur hún dregist saman úr 93% frá 2018 í 87% árið 2022.

Þá hefur þátttaka í bólusetningu gegn mislingum-, hettusótt- og rauðum hundum farið dvínandi. Þannig hefur þátttaka í fyrstu tveimur skömmtunum farið úr 94% árið 2018 í 91% árið 2022. Þátttaka í öðrum skammti dróst saman úr 95% árið 2018 í 89% 2022.

Er staðan nú orðin þannig að bólusetningarþátttaka er ófullnægjandi til að hindra útbreiðslu meðal barna ef mislingar berast til landsins.

Almennt greiður aðgangur að bólusetningum

„Það hafa verið um svona árabil ákveðnar áhyggjur af tilteknum bólusetningum. Það er þá sérstaklega kíghóstabólusetningin sem er gerð við fjögurra ára aldur og mislingabólusetningin,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, yfirlæknir bólusetninga hjá sóttvarnasviði embættis landlæknis. 

Eins og í flestum löndum varð þátttaka í reglubundnum bólusetningum dræmari á meðan heimsfaraldri Covid-19 stóð m.a. sökum þess að heilbrigðisyfirvöld urðu að forgangsraða verkefnum með breyttum hætti.

„Við höfum ekki náð að skríða upp úr þeirri gryfju eins hratt og við vonuðumst til,“ segir Kamilla og heldur áfram:

„Í rauninni hefur verið mjög greiður aðgangur að bólusetningum, fyrir utan þetta tiltekna tímabil þegar það var lítil venjubundin starfsemi á heilsugæslunum þegar Covid-faraldurinn stóð sem hæst, en það vita ekki allir af því.“

Unicef, Controlant og embætti landlæknis efndu í dag til vitundarvakningar um bólusetningar barna á Íslandi og hvöttu til átaks til að fyrirbyggja lífshættulega sjúkdóma og stuðla að heilbrigðri æsku.

Skylda að skrá hafnanir

Spurð hvort einnig megi rekja þetta bakslag til orðræðu um hugsanlega skaðsemi bólusetninga á meðan heimsfaraldurinn stóð, segir Kamilla það mögulegt.

„En við sjáum ekki mjög skýr merki um það. Hér á Íslandi er skylda að skrá hafnanir á barnabólusetningunum þannig við getum fylgst með því í grunni sóttvarnalæknis og við sjáum ekki neina augljósa aukningu í því. Hins vegar eru alltaf einhverjir sem hafna bólusetningum hreinlega með því að mæta ekki í skoðanir og það er miklu erfiðara að halda utan um hvort þetta séu einstaklingar sem vilja ekki bólusetningar eða vita ekki af kostinum.“

„Þetta er ekki tilviljun

Sex tilfelli kíghósta hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu í mánuðinum. Er um að ræða fyrstu tilfelli kíghósta sem greinst hafa hér á landi síðan árið 2019. 

Þá bárust mislingar með erlendum ferðamanni hingað til lands í febrúar og greindist fullorðinn einstaklingur með mislinga á Norðurlandi fyrr í mánuðinum.

Spurð hvort þessi tilfelli séu hugsanleg afleiðing af bakslagi í bólusetningum segir Kamilla svo vera.

„Þetta er ekki tilviljun því þetta bakslag sem við sjáum hér gerðist náttúrulega víða, í mörgum löndum, og það hefur verið mikill mislingafaraldur í Evrópu frá því fyrir áramót. Við fáum tilfelli hingað inn vegna þess að þau eru að koma frá Evrópulöndum þar sem hafa verið miklir mislingar.“

„Það var kíghóstafaraldur í Danmörku á síðasta ári sem við áttum von á að kæmi hingað en hefur svo ekki borið á fyrr en núna nýlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert