Ólíkt ákall fólks á landsbyggðinni

Baldur Þórhallsson klappar kusu.
Baldur Þórhallsson klappar kusu. Ljósmynd/Aðsend

„Það er áhugavert þetta samtal um allt land. Ég myndi til dæmis segja að eitt sem ég hef heyrt um allt er að landsbyggðinni finnst hafa myndast ansi mikil gjá á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Víða vekur fólk athygli á því að þau vilji forseta allra. Þau vilji forseta sem horfi til allra byggðarlaga, allra einstaklinga og allra hópa í samfélaginu,“ segir Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi í samtali við Morgunblaðið.

Frambjóðendur til embættis forseta Íslands hafa ferðast um landið á síðustu vikum og munu halda því áfram næstu vikur.

„Ég heyri alveg heilmikið að þau vilji ekki flokkspólitískan forseta,“ segir Halla og útskýrir að þetta hafi komið upp hvert sem hún fer.

Halla Tómasdóttir í Reykjanesbæ.
Halla Tómasdóttir í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Aðsend

Vilja heiðarleika

Jón Gnarr forsetaframbjóðandi segir fólk mest vera að kalla eftir einhverju eðlilegu og heiðarlegu.

„Að forsetaembættið megi ekki alveg hverfa inn í pólitískt tungumál, þar sem þú getur talað án þess að nokkurn tímann segja neitt. Mér finnst það vera það sem ég heyri mjög mikið,“ segir Jón Gnarr í samtali við Morgunblaðið.

Aðspurður kveðst hann ekki taka eftir miklum mun á áherslum fólks eftir búsetu.

„Ég skynja vilja til þess að þetta sé eðlilegt og virðingarvert en ég hef ekki fundið fyrir neinum áherslumun,“ segir Jón Gnarr.

Jón Gnarr kynnti sér starfsemi Kjöríss í Hveragerði.
Jón Gnarr kynnti sér starfsemi Kjöríss í Hveragerði. Ljósmynd/Aðsend

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi hefur einnig farið þvers og kruss um landið og segir hún fólk taka vel undir hennar sjónarmið.

„Ég er að heyra samhljóm með áherslunum og ég er líka að heyra að fólk þyrstir í samvinnu og þátttöku. Ekki bara út af tækifærunum sem það skapar heldur er það líka gleði og samkennd sem fæðist í svoleiðis samstarfi. Seiglan sem við þurfum á að halda til að skapa samfélag sem er þannig að framtíðarkynslóðir njóti landsins með sama hætti og við höfum notið landsins,“ segir Halla Hrund í samtali við Morgunblaðið. Hún segir ólíkar þarfir vera á milli byggðarlaga.

„Það skiptir máli að forseti geti hjálpað til við að efla skilning okkar á hverjar eru ólíkar aðstæður á milli byggða. Hvernig getum við saman verið að fjárfesta í og efla byggðir um allt land, því að það er mjög mikið hagsmunamál fyrir mig, þig og okkar afkomendur.“

Halla Hrund Logadóttir.
Halla Hrund Logadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Skýr í sínu máli

Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi hefur aðallega ferðast um landsbyggðina og kveðst hafa átt góð samtöl við fólk þar.

„Fólkið í landinu er búið að fá nóg af því hvernig landinu er stjórnað, eða öllu heldur hvernig því er ekki stjórnað. Fólkið vill eiga málsvara í sölum valdsins og fólkið vill forseta sem talar máli þeirra, ver rétt þeirra, gætir hagsmuna þeirra, veitir aðhald og hefur eftirlit með því sem fram fer meðal kjörinna fulltrúa inni í kerfinu,“ segir Arnar Þór við Morgunblaðið.

Hann segir fólk á landsbyggðinni tala máli heilbrigðrar skynsemi og það viti út á hvað lífið gengur.

„Rödd almennings á landsbyggðinni finnst mér vera alveg skýr,“ segir Arnar.

Arnar Þór Jónsson í Ráðhúsi Fjarðarbyggðar.
Arnar Þór Jónsson í Ráðhúsi Fjarðarbyggðar. Ljósmynd/Aðsend

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi tekur eftir því að hvert sem hann fer um landið sé skýrt ákall um að landsmenn horfi á landið sem eina heild óháð búsetu.

„Ég tek eftir því að fólk kallar eftir því að nýting náttúruauðlinda sé á þann hátt að það gangi ekki á umhverfið og að heimamenn fái að taka þátt í þeim ákvörðunum sem varða þeirra nánasta umhverfi,“ segir Baldur í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að fólki á landsbyggðinni finnist hlutverk forsetans vera mjög mikilvægt.

„Það er bæði mikilvægt þegar kemur að því að setja ákveðin mál á dagskrá en líka það að forsetinn gegni skyldum sínum og hafi aðhald með löggjafarvaldinu – Alþingi,“ segir hann.

Margar þjóðir í landinu

„Sum sem hafa mætt á fundi hjá mér hafa látið þau orð falla að það séu margar þjóðir í landinu,“ segir Katrín Jakobsdóttir sem kveðst finna fyrir ákalli um að forsetinn tali til þjóðarinnar algjörlega óháð búsetu.

Katrín Jakobsdóttir fylgdist með sauðburði í Ytri-Fagradal.
Katrín Jakobsdóttir fylgdist með sauðburði í Ytri-Fagradal. Ljósmynd/Aðsend

„Að við munum að aðstæður séu mismunandi milli landshluta.“ Þetta ákall segir Katrín eiga við á báða bóga, enda þótt ríkt aðgengi sé að þjónustu á höfuðborgarsvæðinu, þá megi finna ýmis verðmæti fyrir samfélagið með því að fylgjast betur með því sem er að gerast á landsbyggðinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert