„Þú getur ekki orðið það sem þú hefur ekki séð“

Nick Chambers, forstjóri hjá góðgerðarsamtökunum Education and Employers og forsprakki …
Nick Chambers, forstjóri hjá góðgerðarsamtökunum Education and Employers og forsprakki verkefnisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þú getur ekki orðið það sem þú hefur ekki séð,“ segir Nick Chambers, forsprakki verkefnisins Stækkaðu framtíðina.

Chambers kom nýlega í heimsókn til Íslands á vegum breska sendiráðsins til að ræða um verkefnið og hitta þá sem standa að innleiðingu þess bæði í skólakerfinu og í stjórnkerfinu.

Blaðamaður hitti Chambers á meðan heimsókninni stóð og spjallaði við hann um verkefnið, markmið þess og hve mikilvægt það væri að ungir krakkar hefðu aðgang að alls konar fyrirmyndum.

Innblástur fyrir börn og ungmenni

Verkefnið „Stækkaðu framtíðina“ er samstarfsverkefni háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Markmið þess er að varpa ljósi á tækifæri framtíðarinnar og veita börnum og ungmennum innblástur til að verða það sem þau langar til, í samræmi við áhuga þeirra og styrkleika.

Þetta er gert með því að tengja fjölbreytta sjálfboðaliða af vinnumarkaði við skólastofuna. Þar segja þeir nemendum frá starfi sínu og hvernig nám þeirra hefur nýst þeim.

Fólk á vinnumarkaði getur skráð sig sem sjálfboðaliðar á staekkaduframtidina.is og hafa nú þegar tæplega 800 manns skráð sig.  

Mikilvægt að allir fái að hitta fyrirmyndir 

Chambers segir uppruna verkefnisins mega rekja til hugmyndarinnar um að þeir einstaklingar sem maður hittir á lífsleiðinni hafi áhrif á framtíð manns. Sum börn hafa fleiri tækifæri til að hitta alls konar fyrirmyndir en markmið verkefnisins er að sjá til þess allir krakkar fái tækifæri til þess.

Þannig á það ekki að skipta máli hvar á Íslandi börn fæðast eða hver bakgrunnur þeirra er heldur fá þau öll tækifæri til að hitta fyrirmyndir.

Breski sendiherrann Bryony Mathew er skráður sem sjálfboðaliði í verkefninu.
Breski sendiherrann Bryony Mathew er skráður sem sjálfboðaliði í verkefninu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég býst við að þetta hafi verið í gangi í áraraðir, að fólk hafi hitt annað fólk og þau kynni mótað framtíð þeirra en í þetta skiptið erum við að reyna að gera það markvisst,“ segir Chambers og bætir við að sérstaklega mikilvægt sé að ná til ungmenna sem búi á einangraðri stöðum.

Með því að kynna krökkum fyrir alls konar fyrirmyndum er einnig hægt að koma í veg fyrir að staðalímyndir fylgi störfum.

„Við erum að víkka sjóndeildarhringinn og sýna börnum að allt sé mögulegt.“

Aukinn tilgangur með náminu

Þá bætir Chambers við að erfitt sé fyrir börn að finna metnaðinn til að læra í skóla ef þau sjá ekki ávinning þess. Með því að sýna þeim alls konar möguleika sé auðveldara fyrir þau að máta sig við áhugasvið sitt og sjá nám sem jákvæðan hlut sem mun síðar hjálpa þeim að ná árangri í framtíðinni og auka lífsánægju.

Hann bendir einnig á að börn hafi oft tilhneigingu til að ætla að gera það sama og foreldrar sínir, það sem þau sjá í nánasta umhverfi sínu, og nú stundum það sem þau sjá á samfélagsmiðlum.

„Þau skilja oft í raun ekki hversu víðtæk tækifæri þeirra eru. Þetta breytir því.“

Hægt að byggja á velgengni Íslands 

Verkefnið hóf göngu sína í Bretlandi árið 2012 og hafa um 75.000 sjálfboðaliðar tekið þátt. Verkefninu er einnig haldið úti í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Sviss og teygir það anga sína víðar.

Chambers segir frábært að verkefnið sé nú innleitt á Íslandi. Það hafi marga kosti að innleiða það í litlu landi. Með því sé hægt að sjá árangur á landsvísu, eitthvað sem hafi reynst erfitt í öðrum löndum.

Þá bætir hann við að verkefnið byggi að mestu leyti á jafnrétti. Ísland sé þekkt fyrir árangur sinn í kynjajafnrétti og því sé hægt að byggja á þeirri reynslu og þekkingu. 

Krakkar í 5. bekk í Landakotsskóla fengu heimsóknir frá fyrirmyndum.
Krakkar í 5. bekk í Landakotsskóla fengu heimsóknir frá fyrirmyndum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kennarar eru lykilinn

Spurður hvað þurfi til að verkefnið gangi vel segir Chambers kennara vera lykilinn að velgengni. „Það er kennslan sem mun knýja fram breytingar um allt land.“

Mikilvægt sé að styðja við kennara og auðvelda þeim að fá heimsóknir frá fyrirmyndum. Kennarar séu mjög upptekin stétt og því þurfi að sjá til þess að nægur stuðningur sé til staðar og komið sé í veg fyrir að það verði tímafrekt og erfitt að fá heimsóknir. 

Þá bætir Chambers við að einnig sé mikilvægt að fá fjölbreytt fólk til að skrá sig. „Allir eru fyrirmyndir og fleiri hafa áhugaverða sögu að segja en halda það.“

Hann segir titilinn fyrirmynd flækja þetta aðeins, að það séu ekki margir sem líti á sjálfan sig sem fyrirmynd en Chambers segir að þetta snúist einfaldlega um að krakkar geti tengt við störfin og fái að spyrja spurninga.

Sjálfboðaliðar þurfa því ekki að vera með stóra fyrirlestra eða vera þekktir innan síns geira heldur þarf einfaldlega venjulegt fólk í venjulegum störfum sem hefur einhverja sögu að segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka