Pólitískur útúrsnúningur ekki í boði vegna álits

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata segir álitsgerð fjármálaráðs ólík fyrri árum sökum þess hversu harðorð hún er. 

Í álitsgerðinni sem kom út í gær er m.a. bent á það að ríkisútgjöld á árunum 2025-2029 séu ófjármögnuð. 

Björn Leví segir að þarna sé komið faglegt álit sem bendi á ógagnsæi við fjármögnun verkefna ríkisins og bent á með faglegum hætti að það sé ótrúverðugt að ekki liggi fyrir hvernig stefnt sé að aðhaldi í ríkisfjármálum.

„Bent er á hvernig þau (ríkisstjórnin) eru að búa til útgjöld sem í raun er næsta kjörtímabils að leysa. Án þess að útskýra hvernig þau hyggjast tryggja fjármögnun,“ segir Björn Leví.

„Með álitinu skynjum við það að verkefnin sem stjórnvöld eru að tala um að séu svo stór og mikilvæg, þau eru ófjármögnuð,“ segir Björn Leví.

Ekki hægt að tala um innihaldið 

Hvernig nýtist þessi álitsgerð?

„Hún nýtist á þann hátt að skilja aðeins í sundur hvað er pólitísk nálgun og hvað er fagleg nálgun á fjármálaáætlunina. Þegar ég segi, líkt og fjármálaráð segir nú, að það sé ógagnsæi í fjármálaáætlun, þá tekur enginn mark á því. En þegar fagmannahópur á borð við fjármálaráð segir þetta þá hefur það allt aðra vigt. Þá geta stjórnmálamenn ekki bara komið með sinn pólitíska útúrsnúning á móti,“ segir Björn Leví.

Hann bendir á að það geti reynst snúið að ræða fjármálaáætlunina vegna þess sem fjármálaráð bendir á um að verkefni sem stjórnvöld segja mikilvæg eru ófjármögnuð.

„Þegar maður veit ekki hvað er fjármagnað og hvað ekki, þá er ekkert hægt að tala um innihaldið og það er í raun sorgleg staða. Eftir stendur bara orð á móti orði hjá stjórnmálamönnum,“ segir Björn Leví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert