Erfiðar viðræður að baki

Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Sigríður Margrét Oddsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum að ganga frá langtímasamningi milli Samtaka atvinnulífsins, Isavia, [Félags flugmálastarfsmanna ríkisins] og Sameykis og þessi langtímasamningur er fjögurra ára samningur og byggist á stöðugleikasamningnum sem við gerðum í marsmánuði við meirihluta félaga á almennum vinnumarkaði.“

Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið um undirritun kjarasamninga hjá embætti ríkissáttasemjara í gærkvöldi.

„Þessi samningur felur í sér sömu launahækkanir og samið var um í stöðugleikasamningnum í ár og það er ánægjulegt að það náðist jafnframt árangur hjá þeim við að samræma ákveðin atriði hjá þeim félögum sem standa að þessum samningi og líka hagræðing fyrir Isavia og við vorum hér í kvöld í vinnu út frá innanhússtillögu sem ríkissáttasemjari náði fram,“ segir framkvæmdastjórinn.

Bætir hún því við að viðræðurnar hafi verið erfiðar og staðan erfið þar sem fyrir dyrum hafi staðið verkföll sem hefjast hafi átt í vikunni.

„Þetta er allt á réttri leið og ég held að það sé mjög mikilvægt og gott að nota þetta tækifæri til þess að minna á að stöðugleikasamningurinn sem við gerðum var samkomulag um að stuðla að því að verðbólga minnki svo vextir geti lækkað og við sjáum það núna að verðbólgan er á niðurleið og verðbólguvæntingarnar núna eru mun lægri en þær voru fyrir ári,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir að lokum.

Unnar Örn Ólafsson formaður FFR segir undirritunina leggjast vel í alla sem að samningnum hafi komið enda hafi lokametrarnir óneitanlega verið strembnir.

FFR og Sameyki höfðu boðað verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli sem áttu að hefjast síðar í vikunni en þeim hefur nú verið aflýst.

Aðspurður kvaðst Unnar ekki geta upplýst um hvað helsta ágreiningsefnið hefði verið fyrr en samningurinn verði kynntur félagsmönnum.

„Við förum í það á morgun að undirbúa kynningarefni og tímasetja fundi til að kynna félagsfólki samninginn á allra næstu dögum. Þau eru náttúrulega spennt að sjá hvað er í honum svo við þurfum að hafa hraðar hendur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert