Ég var fullnýttur þjónn Púkarófu

Læðan Púkarófa var afar sérstök læða og þrautseig, enda lifði …
Læðan Púkarófa var afar sérstök læða og þrautseig, enda lifði hún við harðneskju villikatta í 15 ár. Ljósmynd/Kolbeinn Vormsson

„Púkarófa var mögnuð læða, sérdeilis falleg með gulgræn augu og gríðarlega þrautseig. Hún varð 17 ára, sem er mjög hár aldur fyrir villikött. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að fóstra hana tvö síðustu ár ævi hennar,“ segir Kristín Kolbeinsdóttir um frægu villilæðuna Púkarófu sem fór í sumarlandið nú í byrjun maí, eftir harða og viðburðaríka ævi.

„Púkarófa átti stóran aðdáendahóp og var einhverju sinni valin samfélagsmiðlastjarna dýranna, enda hafa margir fylgst með henni árum saman á Facebook-síðunni Óskasjóður Púkarófu. María Þorvarðardóttir sér um Óskasjóð Púkarófu, sem er styrktarsjóður hafnfirskra villikatta, og Púkarófa kom sjóðnum af stað þegar María kynntist henni. Á vegum sjóðsins er villiköttum í bænum gefið, þeim skaffað kisuskjól og ungir kettir fangaðir til að fara með þá í geldingu.“

Kristín segir að læðan Púkarófa hafi komið í heiminn í lóninu í Hafnarfirði og hafi verið villiköttur næstum alla ævi, eða í 15 ár.

„Ég kynntist henni fyrir sjö árum þegar ég byrjaði að gefa villiköttum á gjafasvæði mínu, en þar var hún drottningin sem réð yfir öllu. Ég heillaðist af henni, hún var svo falleg og sérstök, rosalega stór persónuleiki. Eftir að hafa gefið henni úti annan hvern dag í fimm ár, þá myndaðist smám saman ákveðið traust á milli mín og Púkarófu, þó að hún hafi aldrei leyft mér að snerta sig eða klappa.

Í desember fyrir tveimur árum var ákveðið að grípa inn í, því hún var með mikla hnjúska á bakinu, en út frá þeim geta komið sýkingar og sár. Við náðum henni í fellibúr og henni var gefið róandi áður en dýralæknir rakaði af henni allt hár á bakinu, til að losa hana við hnjúskana. Hún var líka með þvagfærasýkingu og komin með gigt. Þar sem þetta var um hávetur kom ekkert annað til greina en að fóstra Púkarófu inni á meðan hún jafnaði sig. Villikattasamfélagið er þannig að um leið og sá köttur sem ræður yfir ákveðnu svæði fer í burtu, þá missir hann yfirráð sín.

Þannig var það með Púkarófu, nýr villiköttur tók hennar sess og hún hefði því ekki átt afturkvæmt. Ég græjaði því gestaherbergið mitt fyrir hana og þar var ég með myndavél til að fylgjast með henni. Hún var með ákveðinn stað í herberginu þar sem hún faldi sig þegar ég kom inn til hennar með mat og til að skipta um sand, en hún sendi mér eitrað augnaráð frá felustað sínum. Hún horfði á mig eins og ég væri fífl þegar ég kom með dót í bandi handa henni.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 9. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert