Ótrúleg tækifæri í skólamálum

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík mbl.is/Ómar

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík kynnti í dag stefnuskrá sína fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Áherslurnar í stefnuskránni eru meðal annars íbúalýðræði, húsnæðismálin og skólamálin. Mbl.is ræddi við Halldór Halldórsson, oddvita flokksins um kosningabaráttuna framundan. 

Halldór kom nýr inn á sjónarsvið borgarmálanna í lok síðasta árs eftir að hafa verið bæjarstjóri á Ísafirði og síðar formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Aðspurður hvaða mál brenni mest á Reykvíkingum segir hann það vera húsnæðismálin og skólamálin. 

„Ég tel að okkur geti tekist betur að opna betur skólakerfið, veita skólunum meira sjálfstæði og draga úr miðstýringunni. Það er í anda okkar frjálslynda flokks að gefa fólki meira val. Við erum ekki að tala um kennarasamninga, það eru samningamál út af fyrir sig, við erum að tala um það hvernig við höldum utan um skólakerfið. Ég sé ótrúleg tækifæri í því og að draga kannski aðeins úr þessari menntaeinokun eins og rætt hefur verið um. Við erum ekki á sama stað og nágrannaríkin og við getum gert miklu betur en við gerum í dag.“

Á að vera hægt að leysa húsnæðisvandann hraðar

Húsnæðisvandinn hefur verið mikið ræddur á kjörtímabilinu og hefur flokkurinn nú kynnt sínar tillögur til þess að leysa hann. Halldór telur að hægt sé að leysa vandamálið hraðar en núverandi meirihluti hefur gert. „Meirihlutinn hefur verið að ræða þetta allt kjörtímabilið og eru enn að setja upp nefndir og tala um einhver Reykjavíkurhús þar sem borgin á að vera eignaraðili og rekstraraðili. Það er dauðadæmt að okkar mati. Borgin á auðvitað að reka sitt félagslega húsnæði en á að öðru leiti ekki að koma nálægt þessu. Miklu frekar á hún að segja: Hér eru lóðirnar, og setja svo ákveðin skilyrði varðandi leigu, og láta svo einkaaðila, til dæmis stúdenta og einkafyrirtæki sem eru í tengslum við markaðinn sjá um afganginn, því þau eru miklu fljótari að þessu. Okkar hlutverk er bara að ná niður lóðaverði, auka lóðaframboð vegna þess aðborgin sjálf hefur verið að skapa þennan vanda með því að skapa lóðaskort.“

Fjölbreyttar leiðir til að efla íbúalýðræði

Í stefnuskrá flokksins fyrir kosningarnar kemur fram að flokkurinn vilji efla íbúalýðræði. Á fundinum í dag sagði Halldór að flokkurinn myndi beita sér fyrir því að íbúakosningar yrðu haldnar í ríkari mæli um stærri mál. Var flugvallarmálið nefnt sem dæmi í því samhengi. Halldór telur að íbúalýðræði megi efla með fjölbreyttum leiðum. Nú er til dæmis komið gott kerfi fyrir rafrænar íbúakosningar sem þjóðskrá hefur fest kaup á.  Við sjáum tækifæri í því. Við sjáum líka tækifæri í 108. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem segir að 20% íbúa geta farið fram á íbúakosningar. Það er bara krafa íbúa í dag að þeir vilja koma mera að ákvörðunartöku í stórum málum. Ég nefndi í því samhengi flugvallarmálið, því þegar nefnd innanríkisráðuneytisins hefur skilað af sér, þótt við höfnum því að flugvöllurinn eigi að fara til Keflavíkur, þá viljum við að fólk komi að ákvörðunartöku varðandi það mál.“

„ Mér finnst fyrir mitt leyti ekkert óeðlilegt að landsmenn allir fái að koma að slíkri ákvörðunartöku, það er annarra að ákveða það, þótt við tölum auðvitað bara fyrir Reykvíkinga.“

Úthverfunum verði líka sinnt

Þá segist Halldór einnig heyra gagnrýnisraddir frá fólki sem býr utan hverfanna í miðborg Reykjavíkur, um að þeim sé ekki nógu vel sinnt. „Þess vegna gerum við það að okkar máli að reyna að hugsa um öll hverfin. Þetta brennur á fólki. Mjög margir tala einnig um að það þurfi að bæta almenningssamgöngur, og að fólk verði að fá að hafa meira val um það. 

Halldór segir skólamálin brenna á Reykvíkingum
Halldór segir skólamálin brenna á Reykvíkingum Mynd/Ásdís Ásgeirsdóttir
Reykjavíkurflugvöllur
Reykjavíkurflugvöllur mbl.is/Þorkell
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka