Kosningar í vor enn besti kosturinn

Árni Páll Árnason mætti á fund leiðtoga stjórnarandstöðunnar með forsætisráðherra …
Árni Páll Árnason mætti á fund leiðtoga stjórnarandstöðunnar með forsætisráðherra og fjármálaráðherra í Stjórnarráðinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er mikilvægt að kjördagur liggi fyrir. Við vildum auðvitað að það yrði kosið strax í vor, en það var fellt í þinginu. En það er ennþá mín afstaða að það væri best að kjósa í vor,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is. Hann sat fund ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og for­ystu­mönn­um stjórn­ar­and­stöðunn­ar í dag.

Á fundinum, sem fram fór í Stjórn­ar­ráðinu, tilkynnti Sigurður Ingi að hugsanlegt sé að kosningar fari fram seinni hlutann í október.

Málaskrá ríkisstjórnarinnar var einnig lögð fram á fundinum. „Við eigum eftir að fara nákvæmlega yfir málaskrána og munum meta í framhaldinu hvernig hún er nákvæmlega. En þingið á alveg að geta afgreitt þessi mál með einhverjum hætti,“ segir Árni Páll.

Stjórnarandstaðan hefur ekki gefið nein loforð

Hann leggur þó áherslu á að stjórnarandstaðan hefur ekki gefið nein loforð varðandi samþykkt á ákveðnum málum. „Við erum í sjálfu sér ekki að gefa grænt ljós á hvert og eitt mál eða lofa að samþykkja þau, við þurfum að skoða þau hvert fyrir sig. Í einhverjum tilvikum er að ræða ný mál sem við vitum ekkert um.“

Varðandi einstaka mál segir Árni Páll að almennt hafi málaskráin verið með þeim hætti að það séu engin stór mál fyrirliggjandi sem kalla á stórfelld átök. „Þess vegna höfum við verið að reyna að segja við ríkisstjórnina að hún væri að mikla hlutina fyrir sér og að það ætti að setja fram hugmyndir um kjördag og hún er loksins að treysta sér til þess núna, sem er gott.“

Árni Páll segir jafnframt að það sé í höndum ríkisstjórnarinnar hvort efnt verði til átaka á þinginu eða ekki. „En við tökum við því sem frá ríkisstjórninni kemur og vinnum úr því.“

Húsnæðismál í forgrunni

Á málefnaskránni má finna tæp 80 mál. Aðspurður um hvort stjórnarandstaðan hefði viljað sjá önnur mál rata inn á listann segir Árni Páll: „Ég veit ekki einu sinni hversu langur sá listi yrði yfir mál sem ég hefði viljað að þessi ríkisstjórn myndi láta sér detta í hug. En það eru þarna mál eins og endurskoðun á lögum um Lánasjóðinn [Lánasjóður íslenskra námsmanna]  sem við höfum til dæmis ekki fengið að sjá. Svo eru þarna inni mál sem við þekkjum ósköp vel og mikilvægt að gangi fram eins og húsnæðismálin, þar sem togsreita milli stjórnarflokkanna hefur verið helsta töfin hingað til.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert