Ögmundur hyggst kveðja Alþingi

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Bragi Þór Jósefsson

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra hyggst ekki bjóða sig fram í næstu þingkosningum Þetta kemur fram á bloggsíðu Ögmundar.

Þar segir hann að komið sé að því að breyta um umhverfi. Í dag, 1. maí, sé uppáhaldsdagurinn hans og hann sé góður fyrir ákvörðun sem þessa.

„Á þessum degi líta menn yfir farinn veg en fyrst og fremst er horft fram á veginn. Það geri ég fullur tilhlökkunar um leið og ég þakka öllum þeim sem hafa stutt mig til verka á þingferli mínum.  Annars er ég ekki alveg hættur á þingi. Ég stend að sjálfsögðu mína vakt til loka kjörtímabilsins, hvenær sem nú ákveðið verður að láta því ljúka.  Þá taka við ný verkefni.  Ég ráðgeri ekki að hætta að lifa lífinu þótt ég hætti á Alþingi. En öðruvísi líf verður það og önnur verkefni, vonandi ekki síður gefandi,“ skrifar Ögmundur á síðu sína.

Ögmundur var fyrst kjörinn á þing árið 1995 sem óháður frambjóðandi á lista Alþýðubandalagsins. Hann var kosinn á þing fyrir Vinstri græn í Reykjavíkurkjördæmi suður árið 2003 og hefur verið alþingismaður Suðvesturkjördæmis frá 2007.

Hann var heilbrigðisráðherra 2009, dómsmála- og mannréttindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2010 og innanríkisráðherra 2011–2013. Þá var hann formaður þingflokks óháðra 1998–1999 og formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 1999–2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka