Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, hefur ákveðið að gefa kost á sér á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir næstu þingkosningar sem gert er ráð fyrir að fari fram næsta haust.
Björn Valur var þingmaður Norðausturkjördæmis 2009-2013 en sóttist hins vegar eftir því að leiða VG í öðru Reykjavíkurkjördæminu fyrir þingkosningarnar 2013. Björn skipaði fjórða sætið á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir kosningarnar. Hefur hann verið varaþingmaður á yfirstandandi kjörtímabili.
Björn Valur var varaformaður og síðar formaður fjárlaganefndar Alþingis á kjörtímabilinu 2009-2013, formaður samgöngunefndar og þingflokksformaður VG. Frá 2013 hefur hann verið varaformaður flokksins.
„Ég hvet þá sem vilja sjá sterkan framboðslista Vinstri grænna í NA-kjördæmi í kosningum í haust að taka þátt í mótun listans og senda inn tillögur um vænlega frambjóðendur,“ segir Björn Valur á vefsíðu sinni en uppstilling verður í kjördæminu að fengnum tillögum frá flokksmönnum sem búsettir eru innan þess.