Sjálfstæðisflokkur og Píratar hefðu meirihluta á Alþingi yrðu úrslit kosninga eins og niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar HÍ benda til. Fylgi Sjálfstæðisflokks mælist 28,2% og Pírata 25,8% eða samanlagt 54%.
Að undanförnu hafa Píratar mælst hátt í könnunum, en nú virðist sem taflið sé að snúast við. Í könnun Gallup um sl. mánaðamót sögðust 26,6% kjósa Pírata ef gengið væri til kosninga nú og rúm 27% Sjálfstæðisflokk. Um áramót fylgdu 35,3% Pírötum en 25,2% Sjálfstæðisflokki.
Stuðningur við VG í könnun Félagsvísindastofnunar mælist 18,9%. 8,9% segjast styðja Samfylkingu og 8,2% Framsóknarflokk, að því er fram kemur í umfjöllun um niðurstöður könnunarinnar í Morgunblaðinu í dag.