Stjórn Pírata á Norðausturlandi hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hún gagnrýnir harðlega orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, um að engin ástæða sé til að boða til Alþingiskosninga í haust.
„Það ætti að vera óþarft að rifja upp þá atburðarás sem varð til þess að Sigmundur Davíð hrökklaðist úr starfi forsætisráðherra í byrjun apríl og ákvörðun um haustkosningar var tekin,“ segir í tilkynningunni.
„Með því að láta eins og ekkert hafi í skorist sýnir hann Alþingi og almenningi fádæma dónaskap og óvirðingu með þessum orðum sínum. Sigmundi Davíð ber að virða ákvörðun stjórnarflokkanna, sem tekin var í sjálfskipaðri útlegð hans, og munu Píratar á Norðausturlandi ekki láta sitt eftir liggja til að almenningur fái að ganga að kjörborðinu í haust, eins og lofað hefur verið.“
Frétt mbl.is: Sigmundur ætlar að halda áfram