Frosti hættir á þingi

Frosti Sigurjónsson.
Frosti Sigurjónsson. mbl.is/Ómar

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar ekki að bjóða sig fram til þings á ný. Þetta sagði hann í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni á fimmta tímanum í dag.

Frosti kom nýr inn á þing í seinustu þingkosningum, í apríl 2013. Hann hefur gegnt embætti formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Hann sagði að niðurstaða sín eftir nokkra umhugsun hafi verið sú að láta þetta gott heita. Hann sagðist þakklátur og ánægður með öll þau kynni sem hann hefði haft af þingmönnum. Hann væri með gleði í hjarta og gengi stoltur frá verki.

Frosti sagðist vera búinn að upplýsa þingflokk Framsóknarflokksins um ákvörðun sína. 

Hann væri ekki búinn að ákveða hvað tæki næst við. Það væri enn mikill tími þar til þingstörfum lyki. „Ég einbeiti mér að því en það er mjög margt sem kemur til greina. Ég fæ alltaf einhverjar hugmyndir,“ sagði hann. Það væri ekkert sérstakt í augnablikinu sem hann hefði í huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert