Prófkjör Pírata í Suðurkjördæmi fyrir komandi þingkosningar hófst á miðnætti í dag, en kosning fer fram í rafrænu kosningakerfi flokksins. Kosningin stendur í 10 daga, eða til miðnættis aðfaranótt 12. ágúst. 23 eru í framboði og bjóða tvær sig fram í fyrsta sæti. Flestir aðrir taka þó ekki fram sæti sem þeir sækjast eftir.
Í Suðurkjördæmi eru 10 þingmenn og því þarf listinn að innihalda 20 manns. Í kosningunni verður notast við Shylze-aðferð við uppröðum sem virkar með þeim hætti að kjósendur forgangsraða frambjóðendum eins langt niður og þeir kjósa. Þannig getur einn kjósandi raðað fimm frambjóðendum á lista á meðan annar raðar öllum frambjóðendunum.
Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, segir í samtali við mbl.is að 431 hafi kosningarétt í prófkjörinu, en á síðustu tveimur mánuðum hafa um 100 bæst í hóp Pírata.
Til að kjósa þarf félagsmaður að hafa verið skráður í 30 daga í flokkinn. Sigríður Bylgja segir að hafi fólk ekki náð fullum 30 dögum geti það kosið innan kosningatímabilsins ef 30 daga markinu er náð á þeim tíma.
Þær Elsa Kristjánsdóttir og Elín Finnbogadóttir bjóða sig báðar fram í fyrsta sæti listans. Flestir aðrir frambjóðendur láta vera að tilgreina sæti sem þeir sækjast eftir, en meðal þeirra er Smári McCarthy sem leiddi lista Pírata í kjördæminu í síðustu kosningum.