Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir einhverju efstu sætanna í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi, sem áætlað er að verði 10. september.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Árna í Morgunblaðinu í dag, en þar segir hann að „meðframbjóðendur“ sínir hafi unnið skipulega að því að fæla fólk frá því að kjósa sig í prófkjöri flokksins í janúar 2013.
„Þannig rottuðu þau sig saman, Ragnheiður Elín, Unnur Brá og Ásmundur, og höfðu erindi sem erfiði en þessi vinnubrögð þeirra eru hins vegar einsdæmi í sögu prófkosninga,“ segir Árni meðal annars í greininni.
Hér að neðan má lesa grein Árna í heild, eins og hún birtist í Morgunblaðinu í dag:
„Það er búið að fara illa með þig, Árni,“ sagði einn af elstu og reyndustu menningarfrömuðum Suðurlands við mig fyrir skömmu. „Hvað áttu við“ spurði ég. „Þér var vikið til hliðar í stjórnmálum að ástæðulausu.“
Því miður er þetta dapurleg staðreynd, því það er ekkert grín að vera sparkaður niður á seinni hluta ævistarfsins. Ef ég hefði tapað á eðlilegan hátt í síðasta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir þremur árum hefði ég ekki tekið því illa, því eðli lífsins er tap og sigrar. Þá hefði ég þakkað fyrir mig með von um að ég hefði gert gagn.
Staðreyndin er hins vegar sú að þrír meðframbjóðendur mínir, sem allir lentu í þremur efstu sætum prófkjörsins unnu skipulega að því að fæla fólk frá því að kjósa mig. Þannig rottuðu þau sig saman, Ragnheiður Elín, Unnur Brá og Ásmundur, og höfðu erindi sem erfiði en þessi vinnubrögð þeirra eru hins vegar einsdæmi í sögu prófkosninga Sjálfstæðisflokksins. Meginmarkmiðið í prófkjöri er að almennir kjósendur velji á lista en ekki frambjóðendurnir sjálfir. Þessi vinnubrögð eru ekki ólögleg en þau eru algjörlega siðlaus og ódrengileg á versta máta.
Að loknu prófkjörinu kallaði oddvitinn fimm efstu í prófkjörinu til fundar og byrjaði fundinn svo smekklega að lýsa því yfir að nú væru spennandi tímar framundan í Suðurkjördæmi „því við erum laus við Árna Johnsen og nú er ýmislegt hægt að gera“. Blessuð konan vissi ekki og veit ekki að ég var með afkastamestu þingmönnum bæði í flutningi mála og því að ná málum í heila höfn, hvað svo sem um mig má segja.
En hvað hefur þetta blessað fólk gert síðastliðin þrjú ár í skjóli ríkisstjórnarmeirihluta? Ekki neitt, hreinlega ekki neitt sem hefur komið Suðurkjördæmi til góða. Þau hafa lagt fram þrjú mál, ráðherrann mál um staðgöngumæðrun, sem líklega verður aldrei hægt að samþykkja vegna þess að það er ekki hægt að tryggja rétt barnsins, mál um náttúrpassa sem allir vita hvernig fór og þingmannamál um sölu áfengis í búðum, dapurlegt mál. Þetta er allt og sumt, en tríóið leyfði sér að bregða fyrir mig fæti og fella mig á hlaupabrautinni með 40 mál í farteskinu, stór og smá varðandi Suðurkjördæmi og landið allt, meðal annars mál upp á einn milljarð króna uppgjör ríkisins við Reykjanesbæ vegna Helguvíkurhafnar, mál sem ég var búinn að vinna með í þrjú ár og fá samþykkt með tillöguuppáskrift í samgöngunefnd með meirihluta þingmanna Alþingis en Vinstri grænir (lýðræðiselskandi flokkurinn) náðu að stöðva það í nefnd með ríkisstjórnarvaldi þannig að það fór ekki til atkvæðagreiðslu í þinginu. Þingmenn sjálfstæðisflokksins höfðu ekki einu sinni rænu á að fylgja þessu eftir við síðustu stjórnarmyndun sem þau áttu sjálf aðild að.
Ég er ekki tapsár, maður lærir slíkt við eðlilegar aðstæður í íþróttunum, ég er ekki að leita að samúð, hentar mér ekki, en kannski svolítið af sanngirni og réttlæti. Ég þarf að vinna, vil vinna og get unnið. Ég kann vel til verka á vettvangi stjórnmálanna, er hugsjónamaður og þoli ekki að sjá tækifærin fara forgörðum vegna sinnuleysis og klúðurs fólks sem hefur að því er virðist eingöngu áhuga á samkvæmisleikjum. Að standa vakt fyrir landsbyggðarkjördæmi er þrotlaus vinna og það vinnst ekkert með endalausri söfnun sjálfsmynda á netmiðlana. Það áþreifanlega ræður úrslitum, árangur. Ég sakna fólksins í Suðurkjördæmi, sakna þess að vera ekki með hversdags í starfi og leik, leggja á ráðin, leysa úr málum.
Fyrir utan fjölda mála sem ég hef unnið að en lentu í þagnargildi eru mörg stórmál sem væri spennandi að vinna að. Staða efnahagsmála er stærsta málið og gengur vel undir forystu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, brýnt er að fylgja eftir öflugri styrkingu heilbrigðiskerfisins. Styrkja þarf markvisst vegakerfi landsins og aðrar samgöngur og ekki síst samgöngur við Vestmannaeyjar þar sem þarf að hefja nú þegar undirbúning jarðgangagerðar samkvæmt einróma skýrslu sem hefur verið í vinnslu sérfræðinga, því það er alveg ljóst að sú ferja sem hefur verið lofað að smíða mun ekki leysa samgöngumál við Vestmannaeyjar á ársgrundvelli, a.m.k. 500 þúsund manna ferðaleið. Þá þarf að tryggja sjúkraflug milli lands og Eyja með staðsetningu vélar í Eyjum. Spennandi er að berjast fyrir stórátaki í verkmenntun ungs fólks og eldri. Þar liggja mikil sóknarfæri. Brýnt er að tryggja skattfríðindi sjómanna vegna vinnu fjarri heimili, en sjómenn eru eina stéttin í landinu sem ekki nýtur slíkra fríðinda. Hækka lægstu laun. Tryggja nýsköpun um allt land. Setja þarf bönkunum stólinn fyrir dyrnar varðandi eilíft aukið plokk af viðskiptavinum og græðgi umfram allt eðlilegt. Stöðva þarf okur sveitarfélaga á lóðum undir ný hús. Hvaða glóra er í því að lóðir sveitarfélaga utan höfuðborgarinnar kosta plús mínus tvær milljónir en á höfuðborgarsvæðinu 15 milljónir plús mínus. Slíkt er hreinn stuldur. Það er margt sem bíður úrlausnar.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í komandi prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi fyrir komandi alþingiskosningar. Ég er rétt liðlega sjötugur, nánast táningur miðað við aldur í alþjóðastjórn málum og hef reynslu, vilja og metnað til þess að ná árangri með hugsjónaeldi. Ef fólkið í Suðurkjördæmi vill að ég vinni fyrir það eins og ég hef gert um langt árabil, þá þarf að stefna á eitthvert efstu sætanna, svokallað öruggt sæti, en við eðlilegar aðstæður gætu það verið þrjú þingsæti.
Ég hvet Suðurkjördæminga til þess að taka þátt í prófkjörinu, það á að skipta máli.