Viðræður um samstarf ekki farið fram

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

Formlegar viðræður hafa ekki farið fram um mögulegt samstarf stjórnarandstöðuflokkanna fyrir þingkosningarnar sem stefnt er að fram fari næsta haust. Þetta staðfesta þær Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is en þær hafa báðar viðrað slíkar hugmyndir.

Birgitta segir að ekki sé tímabært að slíkar viðræður fari fram enda liggi ekki endanlega fyrir hvað flokkarnir ætla að leggja áherslu á fyrir kosningarnar. Ekki sé verið að tala um kosningabandalag þar sem flokkar bjóði fram sameiginlega heldur að þeir sammælist um samstarf að loknum kosningum og að stjórnarsáttmáli liggi fyrir fyrir kosningarnar.

Þetta er heiðarlegra gagnvart kjósendum en hefðbundið fyrirkomulag að hennar sögn. Þar með vita kjósendur fyrirfram hvað möguleg ríkisstjórn flokkanna mun leggja áherslu á fái þeir til þess fylgi í stað þess að stjórnarmyndunarviðræður fari fram eftir kosningarnar með tilheyrandi málamiðlunum sem valdi síðan kjósendum vonbrigðum.

Píratar hafa sjálfir lagt áherslu á nýja stjórnarskrá á grundvelli tillögu stjórnlagaráðs, þjóðaratkvæði um framhald umsóknar um inngöngu í Evrópusambandið og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Þá hafa þeir kallað eftir því að næsta kjörtímabil verði stutt til þess að hægt verði að afgreiða nýja stjórnarskrá sem kallar á samþykki tveggja þinga.

Katrín segir sinn flokk jákvæðan fyrir ríkisstjórnarsamstarfi sem byggi á félagshyggju og umhverfisvernd. Þar sem áhersla sé lögð á aukinn jöfnuð í samfélaginu. Meðal annars með því að tryggja fjármagn, til dæmis í gegnum skattkerfisbreytingar, svo að mennta- og heilbrigðiskerfið sé öllum opið án tillits til efnahags. Og atvinnuuppbyggingu í sátt við umhverfið og náttúruna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert