Hugnast ekki stutt kjörtímabil

Katrín Jakobsdóttir formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir formaður VG. mbl.is/Styrmir Kári

Formenn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs taka ekki undir hugmyndir Pírata um að næsta kjörtímabil verði stutt komi til ríkisstjórnarsamstarfs núverandi stjórnarandstöðuflokka í kjölfar næstu þingkosninga sem gert er ráð fyrir að fari fram í haust. Formaður Bjartrar framtíðar segir ótímabært að ræða slíkt.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hefur sagt að mögulegt ríkisstjórnarsamstarf við aðra flokka eftir kosningarnar komi ekki til álita nema fallist verði á að næsta kjörtímabil verði stutt og áhersla verði lögð á að taka í notkun nýja stjórnarskrá í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Stjórnarskrármálið verði klárað og að því loknu boðað til kosninga enda þurfi tvö þing að samþykkja breytingar á stjórnarskrá með kosningar á milli. Birgitta hefur sagt að ekki komi til greina að fallast á tilslakanir þegar kemur að þessum kröfum Pírata.

Oddný G. Harðardóttir.
Oddný G. Harðardóttir. mbl.is/Eggert

„Við höfum bara ekki séð nein sérstök rök fyrir því að stytta kjörtímabilið. Við höfum alveg verið tilbúin til að taka þátt í áframhaldandi vinnu við stjórnarskrána og ljúka henni en höfum ekki endilega séð rökin fyrir því að semja þurfi um sérstaklega stutt kjörtímabil vegna þess,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í samtali við mbl.is. Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar tekur í hliðstæðan streng og Katrín í þessum efnum:

„Það er ekki það sem ég legg áherslu á,“ segir Oddný. Stjórnarskrármálið sé mikilvægt en það eigi við um fleiri mál. Þegar komi að mögulegu stjórnarsamstarfi horfi Samfylkingin hins vegar fyrst og fremst til hinna stjórnarandstöðuflokkanna. Katrín segir mögulegt stjórnarsamstarf snúast um málefnin. VG leggi áherslu á stjórnarsamstarf sem byggi á félagshyggju og umhverfisvernd. Oddný tekur undir það að málefnin séu í fyrsta sæti.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir ótímabært að ræða um það hvort næsta kjörtímabil verði stutt eða ekki enda málefnavinna flokkanna fyrir kosningarnar enn í gangi. Flokkur hans hafi á hinn bóginn verið hlynntur nýrri stjórnarskrá.

Óttarr Proppé.
Óttarr Proppé. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka