Bryndís Ísfold kosningastjóri Samfylkingar

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir.
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir.

Samfylkingin hefur ráðið Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttir sem kosningastjóra fyrir Alþingiskosningarnar í haust.  

Í fréttatilkynningu kemur fram að Bryndís Ísfold hefur verið búsett í New York síðastliðin þrjú ár þar sem hún hefur unnið við kosningabaráttu ýmissa framboða, meðal annars fyrir borgarstjórann í New York, Bill de Blasio. Hún starfaði síðast sem yfirmaður samskiptamála fyrir National Organization for Women í New York.

Hún var framkvæmdarstjóri Já Ísland frá árinu 2010 - 2012 og starfaði síðar hjá almannatengslafyrirtækinu Netspor.  

Bryndís hefur verið virk í Samfylkingunni frá stofnun flokksins og var varaborgarfulltrúi í sjö ár. Hún hefur einnig setið í nefndum og ráðum á vegum flokksins og gengt fjölda trúnaðarstarfa. Hún hefur verið virk í félagsstörfum og var m.a. í ráðskonuráði Femínistafélags Íslands 2002 - 2004 og formaður félags stjórnmálafræðinga 2012.  

Bryndís hefur einnig starfað sem blaðamaður; fyrir Mannlíf, Miðjuna og Man tímarit. Síðasta árið hefur hún skrifað greinar um bandarísku forsetakosningarnar fyrir Kjarnann og rætt sama málefni á Bylgjunni.

Bryndís er með BA gráðu í stjórnmálafræði, BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í Election and Campaign Management frá Fordham University í New York City.

Í tilkynningunni kemur fram að Samfylkingin hefur unnið að undirbúningi alþingiskosninganna um nokkurra mánaða skeið. Flokksval verður haldið í Reykjavík, Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi 8.-10. september en í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi verður beitt uppstillingu við val á framboðslista.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert