Landsstjórn Framsóknarflokksins kom saman í gær og var þar tekin ákvörðun um að haustfundur miðstjórnar flokksins færi fram í byrjun september.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður landsstjórnar, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Fundarboð verði sent á miðstjórnarmenn á næstu dögum. Tilefni miðstjórnarfundarins eru fyrirhugaðar þingkosningar í haust en miðstjórn Framsóknarflokksins fundar að jafnaði tvisvar á ári. Að vori og hausti.
Samkvæmt heimildum mbl.is er hugsanlegt að miðstjórn boði til flokksþings fyrir kosningar. Flokksþing er að jafnaði haldið annað hvert ár en síðast fór það fram á síðasta ári. Kallað hefur verið eftir flokksþingi á þessu ári. Meðal annars af Karli Garðarssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, fyrr á þessu ári.
Verði boðað til flokksþings mun meðal annars fara fram kosning um forystu Framsóknarflokksins, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, hefur átt undir högg að sækja frá því að hann lét af embætti forsætisráðherra í kjölfar birtingar Panama-skjalanna svonefndu.