Stjórnarandstaðan fengi vopn í hendurnar

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að það væri algjört glapræði að nefna dagsetningu á kosningum. Þá myndi stjórnarandstaðan fá vopn í hendurnar og gæti stöðvað mál með málþófi. Gunnar Bragi var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2.

„Við skulum alveg hafa það á hreinu að um leið og dagsetning verður komin þá er stjórnarandstaðan komin með ákveðið vopn í hendurnar, þá getur hún tekið þingið í gíslingu og ráðið því nákvæmlega hvaða mál fara í gegnum þingið,“ segir Gunnar Bragi og bætir við: „Hún getur stýrt dagskránni í rauninni með málþófi eða kröfum. Það er ástæðan fyrir því að það er ekki hægt að nefna dagsetningu fyrir fram.

Ef stjórnarandstaðan er tilbúin að hleypa í málunum í gegn sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á, ég vil meina að þetta séu kannski fá umdeild mál þar inni, þá er hægt að nefna dagsetningu en stjórnarandstaðan hefur ekki verið tilbúin til þess að gera þetta með þessum hætti og þess vegna liggur ekki dagsetning fyrir. Það er algjört glapræði upp á störf þingsins og fyrir ríkisstjórnina, sem ætlar að ná ákveðnum málum í gegn að nefna dagsetningu fyrir fram,“ segir á vef RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert