Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, ætlar að gefa kost á sér í fyrirhuguðu prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is. Aðspurður hvaða sæti hann setji stefnuna á segist hann stefna á forystusæti.
Prófkjörið fer fram 3. september en sameiginlegt prófkjör er haldið eins og áður fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö, norður og suður. Efstu sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu þingkosningar 2013 voru skipuð af Illuga Gunnarssyni og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur en Hanna Birna hefur lýst því yfir að hún ætli ekki að fara aftur í framboð.
Guðlaugur var í fimmta sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar.