Formaður Heimdallar í framboð

Albert Guðmundsson
Albert Guðmundsson Ljósmynd/Hakon Broder Lund

Albert Guðmundsson, formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, hefur ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer laugardaginn 3. september.

Í framboðstilkynningu segist Albert hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn frá því hann var í menntaskóla, út frá hugsjóninni um frelsi einstaklingsins. Síðan hann hafi tekið við formennskunni í Heimdalli og kynnst því góða fóki sem sinni trúnaðarstörfum innan flokksins hafi áhugi hans vaxið jafnt og þétt.

„Ég er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og stunda nú laganám við Háskóla Íslands. Í sumar starfa ég sem flugþjónn hjá Icelandair en hef áður sinnt ýmiss konar störfum, meðal annars skrifstofustörfum, fiskvinnslu og umönnun eldri borgara. Þar að auki hef ég sinnt ótal félagsstörfum, til dæmis setið í stjórn Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands, og Stúdentaráði Háskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.

Albert segir að í stefnu Sjálfstæðisflokksins felist fjölmörg tækifæri fyrir alla.

„Frá því ég tók við formannsebætti hef ég fundið fyrir mikilli grósku innan flokksins. Flokkurinn státar af fólki sem brennur fyrir velferð þjóðarinnar. Ungir sem aldnir komu að því að móta þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir en þeirri stefnu vil ég vinna framgang í samstarfi við alla sjálfstæðismenn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum árin alltaf höfðað til frelsistilfinningar ungs fólks. Þá frelsistilfinningu þekki ég og vil koma henni á framfæri til annarra ungra Íslendinga. Þess vegna sækist ég eftir baráttusæti á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir komandi kosningar. Nái ég kjöri mun ég beita mér af heilhug til að efla Sjálfstæðisflokkinn, flokk allra stétta, og starfa í þágu fólksins í landinu,“ segir Albert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert