Stefnt er að því að tölur úr prófkjörskosningum Pírata verði birtar í næstu viku. Atkvæðatalning fór fram í gegnum forritunarkerfi Pírata og að loknum kosningum raðaði kosningakerfið frambjóðendunum upp í niðurstöðu prófkjörsins.
Engar tölur fylgdu niðurstöðunni þegar hún var birt. Verið er að búa til nýja skipun í forritunarkerfi Pírata sem biður um upplýsingar um röðun á bak við hvern frambjóðanda þ.e. hversu mörg atkvæði hver frambjóðandi fékk í hvert sæti fyrir sig.
„Það er alls ekki rétt að tala um kjósanda á bak við hvern frambjóðanda vegna þess að það er ekki svoleiðis. Það er röðun á bak við hvern frambjóðanda af því að hver kjósandi gat raðað frambjóðendum í mismunandi sæti,“ segir Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.