Sema sækist eftir öðru sæti í Kraganum

Sema Erla Serdar.
Sema Erla Serdar.

Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar – Jafnaðarmannaflokks Íslands, sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi vegna komandi Alþingkosninga.

Sema Erla er 29 ára stjórnmálafræðingur með meistaragráðu í Evrópufræðum og Evrópurétti frá Edinborgarháskóla. Hún er í dag formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og situr í Jafnréttis- og mannréttindaráði Kópavogsbæjar. Sema Erla sat í framkvæmdastjórn flokksins frá 2013 - 2016 auk þess sem hún var í stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar árin 2013 - 2015, formaður landsfundarnefndar flokksins 2014 – 2015 og alþjóðafulltrúi Ungra jafnaðarmanna á árunum 2008 – 2010.

„Íslenskt sam­fé­lag er í stöðugri þró­un. Breytt sam­fé­lag þýðir breyttar áhersl­ur. Nýir tímar þýð­ir nýjar áskor­an­ir. Krafan um ný stjórn­mál og ný vinnu­brögð hefur aldrei verið hávær­ari og hún hefur sjaldan ver­ið rétt­mæt­ari. Á sama tíma og kallað er eftir nýjum stjórnmálum og nýjum vinnubrögðum hefur krafan um sterkan jafnaðarmannaflokk sjaldan verið jafn hávær og nú og því er mikilvægt að hreyfing jafnaðarmanna svari þessum kröfum og mæti sterk til leiks í komandi kosningum svo hún komist í stöðu til þess að tryggja Íslendingum betra og jafnara samfélag, laust við sérhagsmunaöfl, spillingu, auðvaldspólitík og mismunun. Við sem hér erum og þeir sem hingað koma eiga hreinlega meira skilið en það samfélag óstöðugleika, ójöfnuðar og óréttlætis sem við búum nú í.

Áherslan hefur í alltof langan tíma verið á kol­ranga hluti. Sér­hags­muna­öflin og auð­vald­ið hafa alltof lengi ráðið för í sam­fé­lag­inu og við hin höfum um of langan tíma þurft að lúta í lægra haldi. Niðurstaðan er land­flótti ungs fólks, hús­næð­is­markaður sem er í mol­um, ónýtt heil­brigð­is­kerfi og aðför að mennta­kerf­inu. Íslensk stjórn­mál hafa ekki end­ur­speglað þá fjöl­breytni sem finna má í ís­lensku sam­fé­lagi um langan tíma. Gam­al­dags flokkapóli­tík­, klíku­skapur og Alþingi sem virð­ist oft á tíðum ekki vera í neinum tengslum við ­sam­fé­lagið er ein­fald­lega ekki í lagi leng­ur.

Það er ótrúlegt að árið 2016 reyn­ist erfitt að finna hópa í sam­fé­lag­inu sem ekki eru enn að berjast fyrir bættum kjörum, virð­ingu og rétt­læti. Þessu þarf að breyta! Helsta verkefnið framundan er að endurmóta íslenskt samfélag í anda hugsjóna jafnaðarmanna, byggja þarf upp eitt samfélag fyrir alla þar sem grundvallar lífsgæði almennings eru tryggð, þar sem fólk getur lifað mannsæmandi lífi og grunnstoðirnar eru í lagi og réttlæti, velferð og mannréttindi allra eru tryggð.

Þar á endurreisn heilbrigðiskerfisins að vera forgangsatriði. Aðgengi að slíkri þjónustu á aldrei að vera háð efnahag eða fjárhagsstöðu einstaklinga og því á hún að vera gjaldfrjáls. Útrýma þarf löngum biðlistum sjúklinga og bæta aðgengi. Bæta þarf kjör ellilífeyrisþega og öryrkja sem og barnafjölskyldna. Fjárfesta þarf í menntakerfinu og greiða þarf úr gríðarlega alvarlegu ástandi á húsnæðismarkaði. Áskoranirnar eru margar en áskorunum fylgja tækifæri. Nú er tækifæri til þess að byggja samfélag þar sem ungir Íslendingar vilja og geta byggt sér framtíð og þeir sem eldri eru vilja ver­a áfram hluti af.

Í slíku samfélagi er ekki rými fyrir mismunun, hvort sem er vegna trúar, menningar, uppruna, þjóðernis, kynþáttar eða annarra þátta sem einkennir líf einstaklinga samfélagsins. Í slíku samfélagi er borin virðing fyrir frelsi hvers og eins og jöfnuður, umburðalyndi, réttlæti og samstaða er í hávegum höfð. Slíkt samfélag leggur sitt af mörkum á alþjóðavettvangi. Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum og dag eftir dag sjáum við þær hræðilegu aðstæður sem flóttafólk býr við. Íslensk stjórnvöld verða að axla ábyrgð og  bjóða fleira flóttafólk velkomið til Íslands og sjá til þess að flóttafólk haldi mannlegri reisn og virðingu.

Ég vil leggja mitt af mörkum í því mikilvæga verkefni sem framundan er, að skapa hér eitt samfélag fyrir alla, og því sækist ég eftir 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi,“ segir Sema í tilkynningu.

Nánar um áherslumál Semu Erlu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert