Sigmundur vill leiða flokkinn áfram

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, ætlar að sækjast eftir því að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Þetta segir hann í samtali við mbl.is.

Spurður hvort hann komi til með að sækjast eftir áframhaldandi formennsku segir hann svo vera. „Ég hef svo sem sagt það áður og ég sagði það áfram í viðtölum eftir fundinn, að ég myndi bjóða mig fram til áframhaldandi formennsku,“ segir hann og vísar þar til kjördæmisþingsins sem framsóknarmenn í Norðausturkjödæmi héldu í morgun.

Segir fundi með flokksmönnum hafa gengið mjög vel

Hann segir það liggja fyrir að flokksþing verði haldið hjá flokknum en það sé í höndum miðstjórnar flokksins að ákveða hvenær, þ.e. hvort það verði fyrir eða eftir komandi kosningar. Inntur eftir hans persónulegu afstöðu til tímasetningarinnar sagðist Sigmundur vera til í flokksþing „hvenær sem er“ en sagði þó að það fylgdu því bæði kostir og gallar að halda þingið fyrir kosningar.

„Tíminn er auðvitað knappur, það hefði verið ágætt ef menn ætluðu að halda flokksþing að gera það í byrjun ágúst, en menn meta það bara hvaða tími hentar best,“ segir hann. Spurður hvort hann njóti enn trausts framsóknarmanna til að gegna formennsku í flokknum sagði Sigmundur:

„Nú er ég að fara um landið og hitta fólk, ræða við það. Það gengur mjög vel. Ég geri ráð fyrir því að menn vilji ræða málin og velta hlutunum fyrir sér. Það er því gott að halda fundi í aðdraganda kosninga og til þessa hafa slíkir fundið gengið mjög vel,“ segir Sigmundur og bætir við að hann sé bjartsýnn upp á framhaldið eins og hann hefur alltaf verið þegar pólitíkin er annars vegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka