Þrír þingmenn Framsóknarflokksins hafa skilað inn framboði í fyrsta sætið í Norðausturkjördæmi, gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni flokksins. Áður hafði Höskuldur Þórhallsson tilkynnt að hann ætlaði sér í fyrsta sætið, en nú hafa Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir bæst við.
Stundin greindi fyrst frá því að Þórunn og Líneik hefðu skilað inn framboði, en þar er haft eftir Líneik að hún styðji Sigmund Davíð sem formann flokksins, en telji mikilvægt að það séu fleiri valkostir í fyrsta sætinu.
Kjörstjórn vinnur enn úr framboðsgögnum samkvæmt heimildum mbl.is, en framboðsfrestur rann út á hádegi í dag. Þórunn, sem er þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sækist eftir 1. til 2. sæti í kjördæminu og Líneik sækist eftir 1. til 3. sæti. Þá hafði Höskuldur tilkynnt um það í bréfi til flokksmanna fyrr í vikunni að hann sækist eftir 1. sæti í kjördæminu.
Í bréfinu sagði hann að traust og trúverðugleiki kjósenda á flokknum tapað eftir Wintrismálið. Þá sagði hann að hann vonaðist til þess að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra gæfi kost á sér til formennsku á komandi flokksþingi. Í viðtali við Vísi í dag sagðist Sigurður Ingi ekki útiloka að gefa kost á sér sem formaður flokksins.
Ekki náðist í Líneik Önnu Sævarsdóttur, Þórunni Egilsdóttur, Sigmund Davíð Gunnlaugsson né Höskuld Þórhallsson við vinnslu fréttarinnar.