Páll Rafnar Þorsteinsson, nýjasti frambjóðandinn í röðum Viðreisnar, segist lengi hafa beðið eftir því að stjórnmálaafl á borð við Viðreisn kæmi fram á sjónarsviðið. Vöntun hafi verið á frjálslyndu, jafnréttissinnuðu stjórnmálaafli sem óhrætt sé við breytingar, og sé tilbúið að leiða þær.
Í samtali við mbl.is segist Páll vera búinn að vinna að framboðinu í nokkurn tíma. Hann veit ekki hvar hann kemur til með að enda á framboðslistum Viðreisnar en hefur lýst því yfir við uppstillingarnefndina að hann sé reiðubúinn að taka eitt af baráttusætunum í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.
Frétt mbl.is: Páll Rafnar á lista Viðreisnar
„Ég hef haft áhuga á stjórnmálum frá blautu barnsbeini, hef stúderað stjórnmálaheimspeki, fylgst með stjórnmálum af miklum áhuga og verið gagnrýninn á stjórnmálin á Íslandi og annars staðar,“ segir Páll Rafnar en kveðst þó aldrei hafa ætlað á þing.
„Í sjálfu sér stóð það ekki til. Ég hef aldrei haft til þess sérstakan metnað,“ segir Páll. „Þegar ég hóf afskipti af Viðreisn var það fyrst og fremst til þess að koma þessu í gang, að þetta nýja stjórnmálaafl yrði að veruleika. Það var ekki fyrr en nýlega þegar ég fann hvað ég væri að vinna með öflugum og hvetjandi hóp af fólki að ég ákvað að láta slag standa, standa ákveðið og opinberlega með þeim og hugsjónunum sem við stöndum fyrir.“
Þegar talið berst að Evrópumálum segist Páll Rafnar vera þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður að Evrópusambandinu fari fram svo fljótt sem auðið er. „Það er ekkert launungarmál að flest séum við Evrópusinnuð. Ég mun að minnsta kosti berjast fyrir því að niðurstaðan verði jákvæð og að við munum halda áfram að kanna hvort það sé rétt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið,“ segir hann.
Páll Rafnar segir Evrópumálin þó aðeins vera eitt mál af mörgum og „ekkert aðalatriði“. Hann segir að Viðreisn sé vissulega tilbúin að setja málið á dagskrá og leiða viðræður ef til þess kemur, „en Viðreisn er reiðubúin að takast á við áskoranir í íslensku þjóðlífi burtséð frá því“, segir hann.