Engin breyting hefur orðið á fimm efstu sætunum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi frá því að fyrstu tölur voru birtar. Páll Magnússon er í því fyrsta og Ásmundur Friðriksson í öðru. Í þriðja sæti er Vilhjálmur Árnason. Ragnheiður Elín Árnadóttir er í fjórða sæti og Unnur Brá Konráðsdóttir er í fimmta sæti listans.
Búið er að telja þrjú þúsund atkvæði en alls tóku fjögur þúsund sjálfstæðismenn þátt í prófkjörinu.
Páll Magnússon er að koma nýr inn í stjórnmálin en hann nýtur stuðnings 43,4% þeirra sem tóku þátt í prófkjörinu til þess að skipa forystusæti flokksins í Suðurkjördæmi.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, skipaði það sæti fyrir síðustu kosningar og Unnur Brá var í öðru sæti listans þá. Ásmundur Friðriksson var þá í þriðja sæti og Vilhjálmur Árnason í því fjórða.